Fara í efni
Fréttir

Takið skýra afstöðu gegn öllu misrétti

Fjölmenni var við skólasetningu MA í dag. Ljósmyndir: Sverrir Páll

Nýnemar hafa aldrei verið fleiri í Menntaskólanum á Akureyri en nú, að árinu 2006 undanskildu. Skólinn var settur í dag og kom fram í máli Karls Frímannssonar, nýskipaðs skólameistara, að 240 nemendur hefja nú nám í 1. bekk og alls eru skráðir í skólann 606 nemendur.

Skólameistara varð tíðrætt um vináttu og mikilvægi samskipta þegar hann ræddi við nemendur, og ekki að ósekju.

„Stór og mikilvægur þáttur í verunni hér í MA er að tengjast öðrum og stofna til vináttu sem í mörgum tilvikum varir fyrir lífstíð. En margt bendir nú til þess að sá hópur fari stækkandi sem vill frekar vera út af fyrir sig og eiga í lágmarks samskiptum við aðra nema þá helst með hjálp símans eða annarrar tækja,“ sagði Karl. „Hluti af því tengist tækniþróun en í ljósi þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið á afleiðingum Covid þá bendir margt til þess að fleirum en áður þyki þægilegra að vera heima og sinna náminu eingöngu á vef. Ef horft er á slíka þróun út frá heilbrigðissjónarmiðum þá er breytingin til þess fallin að auka vanda þeirra sem eiga í hlut. Félagsleg einangrun og kvíði eru heilsufarsvandi sem fer stækkandi en það er okkar allra að hjálpast að og taka höndum saman um að leiða slíka þróun á farsælar brautir,“ sagði skólameistari.

Karl Frímannsson skólameistari MA við setningu skólans í dag.

„Hér er staðnám og bekkjarkerfi og gerðar kröfur um lágmarks mætingu. Þegar við verðum þess vör að mætingar dala eða skil á verkefnum versna þá hefur skólinn frumkvæði að því að ræða við viðkomandi nemanda og foreldrana ef þið eruð undir 18 ára aldri. Við leggjum allt kapp á að eiga í góðum samskiptum, fyrst og fremst augliti til auglitis,“ sagði Karl.

Mennskan og fjölbreytileikinn

„Ég veit að þið þekkið öll til umræðunnar um einelti, sum með beinum hætti en önnur af afspurn. Eitt af því sem við stöndum fyrir hér er að enginn í MA, hvorki nemendur né starfsfólk á að sætta sig við að sæta niðurlægingu, virðingarleysi eða hverju því sem setur mennskuna niður og verður til þess að okkur líður illa vegna þess sem aðrir segja eða gera,“ sagði skólameistari.

Hann nefndi að eflaust hefðu öll viðstödd orðið vör við umræðu að undanförnu um bakslag í málefnum hinsegin fólks og í raun málefnum margra minnihlutahópa í samfélaginu. „Við ákváðum fyrir þessa skólasetningu að draga að húni fána fjölbreytileikans sem er þó fyrst og fremst fáni hinsegin fólks, til þess að undirstrika samstöðu okkar með þeim hópum sem þurfa þótt ótrúlegt sé að berjast fyrir grundvallar mannréttindum og þess réttar að njóta virðingar í daglegu lífi. Hvatning mín til ykkar er að láta ekki undir höfuð leggjast að taka skýra afstöðu gegn öllu misrétti og framkomu sem hefur þann eina tilgang að niðurlægja.“

Tapa ekki – vinn eða læri ...

Karl Frímannsson hvatti nemendur til dáða en benti í leiðinni á athyglisverð atriði.

„Kappkostið hvorutveggja í senn að vera góðir námsmenn og góðar manneskjur. Að vera góður námsmaður þarf ekki að þýða að sá hinn sami hafi meira af meðfæddum hæfileikum en aðrir. Að vera góður námsmaður felur það miklu frekar í sér að sýna vilja til að læra meira í dag en í gær, leita leiða til þess og gefast aldrei upp þótt allt gangi ekki eftir í fyrstu, annarri eða þriðju tilraun. Þið sem hafið æft íþróttir, verið í listum eða þurft að yfirvinna einhverskonar vanda í ykkar lífi vitið af eigin raun að æfing og endurtekning skilar ykkur að settu marki. Að gefast upp fyrir verkefnum og leggja árar í bát á ekki að vera valkostur. Hjálpumst að við að komast yfir hjallana í náminu og skólagöngunni almennt.“

Skólameistari sagði síðan í framhaldinu:

„Nelson Mandela fyrrverandi forseti Suður-Afríku sat í fangelsi í 27 ár fyrir mannréttindabaráttu sína og einnig spilaði inn í að hann var dökkur á hörund. Hann sagði eitt sinn: Ég tapa aldrei, annaðhvort vinn ég eða ég læri. Þó okkur takist ekki allt sem við ætlum okkur þá þarf það ekki að þýða að við höfum tapað eða okkur hafi mistekist heldur ætti öll reynsla að leiða til þess að við lærum af henni. Að verða fyrir vonbrigðum eða fá ekki það sem maður vill merkir ekki að við höfum gert mistök. Sá sem sækir um starf og fær ekki hefur ekki gert mistök þótt því fylgi vonbrigði að fá ekki starfið. Sá sem tekur þátt í íþróttakeppni og sigrar ekki hefur ekki endilega gert mistök. Sá hinn sami ætti að líta á úrslitin sem tilefni til að læra af reynslunni. Hugarfar sem þetta kemur ykkur áfram og hjálpar mikið.“

Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir aðstoðarskólameistari og Karl Frímannsson skólameistari MA í dag.