Fara í efni
Fréttir

Hefja kennslu í áfengis- og vímuefnaráðgjöf

Anna Hildur Guðmundsdóttir formaður SÁÁ og Stefán Guðnason forstöðumaður Símenntunar HA skrifa undir samstarfssamning um nám í áfengis-og vímuefnaráðgjöf.

SÁÁ hefur gert samning um samstarf við Símenntun Háskólans á Akureyri um að þar verði boðið upp á nám í áfengis- og vímuefnráðgjöf frá og með næsta hausti. Námið er opið öllum sem hafa áhuga á að aðstoða fólk með fíknsjúkdóm og auka innsýn sína og þekkingu á þeirra vanda, að því er segir á vef SÁÁ, Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann.

„Námið er skipulagt og kennt af sérfræðingum SÁÁ og verður kennt í lotum sem henta þeim sem eru í starfi. Innihald námsins snýst um fræðilega undirstöðuþekkingu á fíknsjúkdómnum, skilning á afleiðingum og áhrifum fíknsjúkdóms, og hvernig megi stuðla að bata og velferð fólks með fíknsjúkdóm og aðstandenda þeirra,“ segir í tilkynningu á vef SÁÁ.

Ómissandi sérmenntun

„Sérmenntun á sviði áfengis- og vímuefnaráðgjafar er ómissandi í þverfaglegri þjónustu við fólk með fíknsjúkdóm. Námið uppfyllir einn hluta (fræðilegur hluti) af skilyrðum til löggildingar sem áfengis- og vímeufnráðgjafi (1106/2012 – Reglugerð um menntun, réttindi og skyldur áfengis- og vímuefnaráðgjafa og skilyrði til að hljóta starfsleyfi. (island.is)). Starfsnám fer áfram fram hjá SÁÁ.“

„Við erum himinlifandi að geta opnað á þekkingu til alls samfélagsins um fíknsjúkdóminn og stuðla að því þjónustuveitendur geti betur mætt þörfum fólks með fíkn. Samstarf við HA er gleðiefni, þar er mikil reynsla og þekking á því að bjóða upp á fagnám og fjarlausnir sem munu bæta gæði námsins,“ er haft eftir Önnu Hildi Guðmundsdóttur formanni SÁÁ.

Stolt og tilhlökkun

„Við erum afar stolt af því að taka við þessu verkefni og hlökkum til að geta boðið upp á þetta nám sem hluta að ört vaxandi námsframboði hjá Símenntun HA. Það er vaxandi þörf fyrir ráðgjafamenntað fólk á öllum sviðum og er námið frábært tól fyrir stjórnendur og aðra,“ segir Stefán Guðnason forstöðumaður Símenntunar HA á vef hennar.

„Námið hefur hingað til farið fram í gegnum SÁÁ samhliða starfsþjálfun á heilbrigðisstofnunum SÁÁ. Starfsheitið áfengis- og vímuefnaráðgjafi var lögleitt árið 2006 og er í dag lögverndað starfsheiti. SÁÁ hefur útskrifað fjölda nemenda sem starfa vítt og breitt um heilbrigðiskerfið, en betur má ef duga skal í ört vaxandi fíkni-samfélagi sem einskorðast ekki einungis við áfengi og vímuefni. Ljóst er að fíknin teygir sig víða og mikilvægt sé að líta á vandann með gleiðlinsu og verða því fíkniráðgjafar enn eftirsóttari innan heilbrigðiskerfisins.“