Fara í efni
Fréttir

Sýnir hve Sinfonia Nord hefur náð langt

Atli Örvarsson - Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson - SinfoniaNord við upptökur í Hofi. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

„Landvinningarnir halda áfram og þetta sýnir bæði hve fjölbreytt verkefni eru að detta í hús og hversu langt SinfoniaNord hefur náð sem hljómsveit á alþjóðavettvangi,“ segir Atli Örvarsson, kvikmyndatónskáld, við Akureyri.net, í kjölfar fréttar gærdagsins um að hljómsveitin hefði í sumar tekið upp tónlist sem mun hljóma á nýrri aðalkvölddagskrá Disney World skemmtigarðsins í Florída. Hún verður frumsýnd 1. október í tilefni 50 ára afmælis garðsins.

Þeir Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson stofnuðu til verkefnisins SinfoniaNord, hliðarverkefnis Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, fyrir nokkrum misserum í því skyni að taka upp tónlist fyrir alþjóðlegan afþreyingariðnað og það hefur gengið vonum framar.

„Stórkostleg hljómsveit“

Fulltrúi Disney lýkur lofsorði á hljómsveitina í myndbandi á vef skemmtigarðsins: „Við erum hér á Íslandi að taka upp þessa stórkostlegu hljómsveit. Það er alltaf góð tilfinning að hlýða á 70 manna hljómsveit leika tónlist sem maður hefur útsett.“

Þorvaldur Bjarni  sagði í gær erfitt að meta hvort þetta verkefni Disney væri stærra eða merkilegra en önnur sem SN hefur fengist við: „Það er erfitt að meta það. Við erum á BBC, Netflix, tölvuleikjum Sony, SIMS-leiknum, Lionsgate, RUV og fjölmörgum Indie myndum. En að vera Center Stage á afmælishátíð Disney er árangur sem tekið verður eftir um allan heim. Ég er tilbúinn með bókunarpennann!“ segir Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar, við Akureyri.net.

Smellið hér til að lesa frétt Akureyri.net í gær um SN og Disney.