Syðri-Skjaldarvík auglýst til leigu
Akureyrarbær hefur auglýst Syðri-Skjaldarvík í Hörgársveit til leigu, en þar var síðast rekið gistiheimili og áður dvalarheimili fyrir aldraða.
Akureyri.net fjallaði um þessi áform í sumar þegar umhverfis- og mannvirkjaráð lagði til við bæjarráð að auglýsa hluta húseigna á staðnum til leigu. Áður höfðu verið áform um að selja húseignir og lóðarskika í tengslum við þær húseignir. Tekið er fram í auglýsingu að Akureyrarbær rekur í dag Hlíðarskóla í þremur fasteignum á jörðinni og þurfi að taka tillit til þess þegar ákveðið verður hvernig húsnæðið verður nýtt. Húsnæðið sem um ræðir er 1.867 fermetrar að brúttóstærð með 35 misstórum herbergjum frá sex upp í 14 fermetra að stærð. Einnig er möguleiki á að taka á leigu einbýlishúsið í Ytri-Skjaldarvík sem er rúmir 242 fermetrar að stærð og útihús sem eru 560 fermetrar.
Vettvangsskoðun verður miðvikudaginn 20. nóvember kl. 11. Tilboðum ásamt greinargerð skal skila rafrænt til umhverfis- og mannvirkjasviðs eigi síðar en kl. 11 fimmtudaginn 5. desember 2024.
Nánar á vef Akureyrarbæjar: Syðri-Skjaldarvík í Hörgársveit til leigu