Fara í efni
Fréttir

Sverrir heldur erindi um fuglamerkingar í 45 ár

Sverrir Thorsteinsson með sonum sínum Katli Þór og Kristjáni Óla. Myndin tekin 1984. Mynd af Facebook
Nú er von á góðu fyrir fuglaáhugafólk á Norðurlandi. Sverrir Thorstensen fuglamerkingamaður flytur erindið „Fuglamerkingar í 45 ár“ á Hrafnaþingi á morgun, 14. febrúar kl. 15.15. Fræðsluerindið er á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands og verður flutt í fundaraðstöðu starfsstöðvar stofnunarinnar að Borgum við Norðurslóð, Akureyri. Einnig verður hægt að fylgjast með erindinu í beinni á Teams.

Þegar blaðamaður Akureyri.net sló á þráðinn til Sverris til þess að forvitnast um myndina sem fylgir viðburðinum, segist hann vera þarna að merkja álftarunga ásamt sonum sínum, þeim Katli og Kristjáni árið 1984. „Þetta eru með allra fyrstu álftarungum sem ég merkti, en einn þeirra kemur einmitt talsvert við sögu í erindinu á morgun,“ segir Sverrir. 
 
Í umsögn um viðburðinn segir að Sverrir hafi merkt tæplega 110.000 fugla af 74 tegundum hingað til. Í erindinu verður fjallað sérstaklega um merkingar og endurheimtur á nokkrum tegundum. Til dæmis snjótittling, skógarþröst og auðnutittling. Einnig verður farið yfir ýmsar merkingar á fuglum í Flatey á Breiðafirði. Þar hefur Sverrir, ásamt Ævari Petersen fuglafræðingi, fylgst með fuglalífi í tugi ára. Þéttleiki nokkurra tegunda er mikill í Flatey og endurheimtur sýna að fuglarnir leita á sama stað ár eftir ár til að verpa. Í þessu sambandi má nefna hrossagauk og óðinshana.
 
HÉR er hægt að skoða viðburðinn á Facebook síðu Náttúrustofnunar.