SVA í biðstöðu – blikur á lofti í metanvinnslunni
Blikur eru á lofti varðandi það magn sem metanvinnslan á Glerárdal skilar af sér og mögulegt að staða mála hafi áhrif á það hvers konar vagn verður næst keyptur inn í flotann hjá Strætisvögnum Akureyrar.
Strætisvagnar Akureyrar eru nú þegar með í notkun fjóra vagna sem ganga fyrir metani, en enn eru þrír vagnar í flotanum sem ganga fyrir díselolíu. Andri Teitsson, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs, segir bæjaryfirvöld helst hafa viljað kaupa fimmta metanvagninn, en þeirri ákvörðun hafi verið frestað þar sem minna komi af metani frá metanvinnslunni á Glerárdal en hafði verið áætlað.
„Það hefur komið til álita að kaupa rafmagnsvagna, en tveir ókostir eru við það,“ segir Andri. „Í fyrsta lagi eru þeir mun dýrari og svo hitt að rafmagnsvagn er hitaður upp með díselmiðstöð þannig að á köldum stað eins og Akureyri væri eftir sem áður umtalsverð díselnotkun á rafmagnsvagninum, sem vinnur auðvitað gegn markmiðinu.“ Áætlað er að sögn Andra að rafmagnsvagninn kosti um 70 milljónir króna, á móti 45 milljónum króna sem metanvagnarnir kosta.