Fara í efni
Fréttir

Styrktartónleikar fyrir bágstadda í Úkraínu

Akureyrarkirkja. Ljósmynd: Eyþór Ingi Jónsson.

Styrktartónleikar fyrir bágstadda í Úkraínu verða haldnir í Akureyrarkirkju þriðjudagskvöldið 29. mars. Það eru organistar kirkjunnar sem skipuleggja viðburðinn og vinna að því að setja saman efnisskrá sem verður fjölbreytt.

Þegar er öruggt að fram koma Kór Akureyrarkirkju, Eldri barnakór Akureyrarkirkju, Hymnodia, Tríóið Bríó, Kristjana Arngrímsdóttir, Elvý Guðríður Hreinsdóttir, Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir og organistarnir þrír, Eyþór Ingi Jónsson, Sigrún Magna Þórsteinsdóttir og Þorvaldur Örn Davíðsson. 

„Við höfum eins og aðrir, fylgst slegin með fréttum. Við ræðum fátt annað á skrifstofunni og við viljum gera það sem við getum til að hjálpa fólki í neyð. Og um leið sýna samstöðu með Úkraínsku þjóðinni og öðrum fórnarlömbum stríða,“ sagði Eyþór Ingi við Akureyri.net.

Lögin á tónleikunum verða annað hvort úkraínsk eða með fallegan friðarboðskap. „Hugmyndin mín var að halda tónleika hér og um leið hvetja og aðstoða aðra organista landsins í að halda tónleika, og spila úkraínska tónlist við helgihald. Ég er í góðum samskiptum við eiginkonu skólabróður míns og vinar, en þau búa í Svíþjóð. Hún er úkraínskur fiðluleikari og hefur hjálpað mér mikið í að finna tónlist,“ sagði Eyþór Ingi.

Féð sem safnast fer til Hjálparstarfs kirkjunnar og rennur þaðan óskipt til hjálparstarfa á landamærum Úkraínu, þar sem ACT Alliance hjálpar fólki á ýmsan hátt, til dæmis með mat og drykk, hreinlætisvörur og leikaðstöðu fyrir börn á flótta.