Styðja staðsetningu þyrlu á Akureyri
Bæjarráð Akureyrar fagnar þingsályktunartillögu 17 þingmanna um að ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar hafi fasta starfsstöð á Akureyri. Bókun bæjarráðs er svar við ósk allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis varðandi umsögn um þingsályktunartillöguna.
Ein þyrla LHG verði staðsett á Akureyri | akureyri.net
Í bókun bæjarráðs segir:
„Að mati bæjarráðs væri þetta skynsamleg og löngu tímabær ráðstöfun til þess að tryggja betur öryggi fólks víða um land. Ekki er æskilegt að hafa allar þyrlur gæslunnar á sama svæðinu með tilliti til óveðurs, náttúruhamfara og annarra skakkafalla auk þess sem slíkt fyrirkomulag tryggir illa fullnægjandi þjónustu við fjarlægari landshluta, einkum Norður- og Austurland. Mikil tækifæri felast í tengingu við sjúkraflugið sem er staðsett á Akureyri og augljós samlegðaráhrif þegar kemur að mönnun og þjónustu við sjúkraflug og þyrlu.“