Fara í efni
Fréttir

Stuðlum að aðlögun útlendinga á Íslandi

Jürgen Jamin er sóknarprestur í Péturssókn á Norðurlandi. Ljósmyndir: Snæfríður Ingadóttir

Kaþólski söfnuðurinn á Akureyri hefur stækkað hratt á síðustu árum í takt við aukinn fjölda kaþólskra innflytjenda. Þó að 89% af söfnuðinum sé fólk af erlendum uppruna þá fer safnaðarstarf og messa fram á íslensku en messublöð eru á ensku, pólsku og íslensku.

„Við erum einn söfnuður og við erum ekki útibú frá erlendri kirkju. Mér finnst verkefni okkar ekki síður vera það að stuðla að aðlögun útlendinga á Íslandi, við viljum ekki búa til gettó,“ segir Jürgen Jamin, sóknarprestur í Péturssókn á Norðurlandi, við Akureyri.net.

  • Stækkun safnaðarheimilisins við Péturskirkju er fyrirhuguð, eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag; það verður tvöfalt stærra en nú og Jürgen segir viðbygginguna kærkomna vegna þess hve söfnuðurinn hefur stækkað. Smellið hér til að sjá þá frétt. 

Í söfnuðinum á Akureyri eru nú um 500 manns en í sókninni allri um 1000 manns. Þá er fjöldi kaþólskra mun meiri á svæðinu enda margir ekki skráðir formlega í söfnuðinn á Norðurlandi.

 Að sögn Jürgens samanstendur söfnuðurinn að stærstum hluta af pólskum fjölskyldum sem sest hafa að á Íslandi. Innsti kjarninn er þó Filippseyingar, konur sem komu til landsins fyrir 30-40 árum. „Messusókn um helgar var um 100 manns fyrir covid. Við erum hægt og bítandi að ná því upp aftur,“ segir Jürgen. 

Kaþólska kirkjan á Akureyri hefur til umráða tvö glæsileg timburhús frá fyrrihluta 20. aldar. Annað er kirkjan en hitt hýsir prestheimilið.

Ein kirkja í stórri sókn

Péturssókn, teygir sig yfir allt Norðurland, frá Holtavörðuheiði og að Langanesi en Péturskirkja á Akureyri er eina kaþólska kirkjan á svæðinu. Messur eru þó haldnar víðar og hefur presturinn fengið staðarkirkjur lánaðar til helgihalds. Á laugardögum er alltaf messað á Dalvík, í húsnæði á vegum nunnanna þar, og á hverjum sunnudegi að lokinni messu á Akureyri heldur presturinn annað hvort á Blöndós, Sauðárkrók, Siglufjörð eða á Húsavík til að messa. Það er að segja ef veður og færð leyfa. Í næstum því fimm ár hefur Jürgen sinnt preststarfinu einn en fyrir jólin fékk hann aðstoðarprest og skipta þeir nú með sér verkum. „Formlega séð þá þyrfti ég líka að fara á Raufarhöfn og Langanes því það er innan sóknarinnar, en það er bara svo langt í burtu og því hafa prestarnir á Reyðarfirði séð um það svæði.“

Péturskirkja er falleg bygging sem staðsett er á horni Eyrarlandsvegar og Hrafnagilsstrætis. Húsið var reist árið 1933 sem íbúðarhús. Því var síðan breytt í krikju á árunum 1998-2000 eftir teikningum Kristjönu Aðalgeirsdóttur og Sigríðar Sigþórsdóttur.

Kennir við lagadeild HA

Jürgen hefur verið prestur kaþólska safnaðarins á Norðurlandi í fimm ár og segist kunna vel við sig á Akureyri. Hann kom fyrst til Íslands fyrir 25 árum síðan. Fyrst bjó hann 10 ár í Reykjavík þar sem hann stundaði íslenskunám við Háskóla Íslands og var prestur í Landakoti. Honum var síðan boðið að fara í framhaldsnám á Ítalíu þar sem hann nam kirkjurétt í Feneyjum. Að námi loknu fór Jürgen í doktorsnám og kenndi í Feneyjum en kom til Íslands árið 2018 þegar honum var boðin preststaðan á Akureyri. „Námið sem ég tók í Feneyjum var þó ekki til ónýtis því ég er líka að kenna við Háskólann á Akureyri í lagadeild, námskeið sem heitir „Rómaréttur Jústiníanusar” enda grundvallast nútímalögfræði og réttarheimspeki að mörgu leyti á hugtökum Rómaréttar til forna. Því er gagnlegt fyrir laganema að kynna sér þau meðan á námi stendur.“

Í kaþólska söfnuðinum á Akureyri eru um 500 manns en 1000 manns í sókninni allri. Þessi mynd er innan úr Péturskirkju á Akureyri.

Myndræn og falleg kirkja

Talið berst aftur að kirkjunni sem er afar myndræn en hún staðsett í göngufæri við Lystigarðinn sem er mikið heimsóttur af ferðafólki. Jürgen segir að ferðamenn sýni kirkjunni mikinn áhuga og margir kaþólskir ferðamenn komi þangað í messur sumartímann „Ég er oft hér úti á lóðinni að vinna í gróðrinum og ferðamenn taka mig gjarnan tali og mynda mig við vinnu í beðunum. Ég reikna með að myndir af mér séu út um allt Instagram,“ segir Jürgen og hlær. Hins vegar hafa færri Akureyringar komið í kirkjuna. Jürgen ítrekar að kirkjan sé alltaf opin yfir daginn og eru allir velkomnir þangað inn, hvort sem þeir eru kaþólskrar trúar eður ei. „Þeir sem vilja eiga kyrrðarstund með sjálfum sér, biðjast fyrir eða hugleiða eru hjartanlega velkomnir.“