Stórtjón hjá Blikk- og tækniþjónustunni
Ljóst er að gífurlegt tjón varð hjá Blikk- og tækniþjónustunni við Kaldbaksgötu á Oddeyri í dag þegar vatn flæddi þar um gólf. Þótt öll kurl séu ekki komin til grafar er ljóst að tjónið hleypur á milljónum – jafnvel tugum milljóna. Líkur eru á að mikið tjón hafi orðið víðar á Eyrinni.
Stórstreymt var svo sjór gekk á land og fráveitukerfið í bæjarhlutanum hafði ekki undan.
Annar eigenda Blikk og tækniþjónustunnar óttast að tvær stórar vélar séu ónýtar en vonar að aðrar hafi sloppið. Þá eru níu bílar fyrirtækisins líklega ónýtir. Þeir stóðu utandyra og vatn hefur komist í rafkerfið.
„Hér er allt á floti eins og þú sérð og ég þori ekki að prófa vélarnar fyrr en búið er að dæla vatninu út,“ sagði Helgi Heiðar Jóhannesson, annar eigenda fyrirtækisins, þegar Akureyri.net skoðaði aðstæður á verkstæðinu. Hann vonar að aðrar vélar hafi sloppið, vatn hafi ekki náð í rafkerfi þeirra. Mesta vatnshæð sem hann mældi á verkstæðinu var 36 cm.
„Ég er nokkuð viss um að bílarnir eru ónýtir. Við náðum að setja þá í gang og keyra burt en gátum svo ekki drepið á þeim nema með því að taka rafgeyminn úr sambandi.“
„Einn starfsmanna minna kom hér í morgun og þegar hann keyrði Hjalteyragötuna flæddi þar vatn upp úr öllum ræsum. Þegar hringt var í mig upp úr klukkan 11 var byrjað að flæða hér upp úr öllum svelgum, þó ekki mikið á þeim tíma, og gatan orðin full af vatni,“ sagði Helgi Heiðar. Hann var ekki hress með viðbrögð Norðurorku. „Þegar ég hringdi þangað var mér sagt að þetta væri hamfaraveður og þeir vildu ekkert gera strax. Ég spurði hvort þeir vildu ekki grafa skurð til að hleypa vatninu af götunni út í sjó en fékk þau svör að haldinn yrði fundur í dag þar sem málin yrðu rædd.“
Slökkvilið kom síðan á vettvang til að dæla vatni og starfsmenn Akureyrarbæjar hófust handa við að reyna að koma vatninu burt – með því að rjúfa skarð í götuna, eins og Helgi hafði viljað í morgun.
Helgi Heiðar óttast að stál og ál á verkstæðinu sé ónýtt. „Þetta er auðvitað saltvatn svo það þarf að minnsta kosti að skola allt og athuga vel. Ég er stressaður yfir þetta, ég varð að viðurkenna það.“
Myndirnar að neðan eru teknar á verkstæði Blikk- og tækniþjónustunnar og fyrir utan hús fyrirtækisins.
Ljósmynd: Þorgeir Baldursson