Stórt skref í rétta átt varðandi barnavernd
Vonir standa til að greiningar- og þjálfunarheimili fyrir börn og ungmenni í vanda hefji starfsemi á Akureyri ekki síðar en í byrjun sumars. Samningur milli Akureyrarbæjar og mennta- og barnamálaráðuneytisins um stuðning ríkisins við rekstur heimilisins var undirritaður í dag. Um tilraunaverkefni er að ræða af hálfu Akureyrarbæjar, hugsað til tveggja ára fyrst um sinn.
Elma Eysteinsdóttir, formaður velferðarráðs Akureyrarbæjar, segir stórt skref stigið í rétta átt varðandi barnaverndina með undirritun samningsins. Starfsemi barnaverndarinnar hafi blásið út á undanförnum árum, málum fjölgað lítillega, en þungum málum fjölgað mikið. Hægt verður að styðja við allt að 12 börn og ungmenni á ári sem yrðu vistuð á greiningar- og þjálfunarheimilinu í allt að 8 vikur.
„Það er mjög ánægjulegt að ríkið sé tilbúið að koma að þessu tilraunaverkefni með okkur. Við rekum sambærilegt úrræði í smærri mynd í Miðholti sem hefur reynst mjög vel og erum því mjög vongóð að úrræði þetta muni reynast okkur vel,“ segir Elma.
Hún segir markmiðið með úrræðinu vera að veita inngrip til skamms tíma þegar hefðbundin úrræði duga ekki til þar sem börn og ungmenni eru vistuð utan heimilis, vandi þeirra greindur og viðeigandi þjálfun fer fram sem miðar að því að styrkja forsjáraðila í uppeldishlutverki þeirra og aðstoða börn og ungmenni með viðeigandi hætti svo þau geti snúið heim aftur.
„Með úrræðinu er leitast við að grípa fyrr inn í mál barna og ungmenna en áður og koma í veg fyrir að vandi þeirra vaxi og að grípa þurfi til meiri íþyngjandi úrræða, svo sem langtímavistunar fjarri heimabyggð og að börn og ungmenni fari að sýna erfiða áhættuhegðun,“ segir Elma Eysteinsdóttir, formaður velferðarráðs.
Fram undan er vinna við að finna hentugt húsnæði undir starfsemina og auglýsa eftir því starfsfólki sem þarf áður en starfsemin hefst. Leitað er að hentugu íbúðarhúsnæði undir starfsemina. Elma kveðst vonast til að starfsemin geti hafist ekki seinna en í upphafi sumars.
Áætlaður rekstrarkostnaður heimilisins er rúmar 107 milljónir króna á ári samkvæmt kostnaðaráætlun sem gerð var á liðnu ári. Framlag ráðuneytisins samkvæmt samningnum verður 54 milljónir króna á ári. Gert er ráð fyrir 6-7 stöðugildum við heimilið.