Fara í efni
Fréttir

Stórt og mikilvægt skref stigið á Dysnesi

Njáll Trausti Friðbertsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, segir græna iðnaðarstarfsemi á Dysnesi munu skipta samfélagið við Eyjafjörð og allt Norðurland gríðarlega miklu máli. Þess vegna sé það skref sem stigið var á dögunum, þegar verkefni Líforkuverks ehf var formlega kynnt, mjög mikilvægt í tengslum við uppbyggingu á Dysnesi.

„Það er ástæða til að fagna því að skriður sé kominn á innviðauppbyggingu förgunar aukaafurða dýra á Íslandi. Söfnun- og ráðstöfun dýraleifa í efsta áhættuflokki og opinbert eftirlit hefur í áraraðir verið ófullnægjandi. Þarna liggja mikilvægir hagsmunir undir varðandi matvælaöryggi, varnir gegn dýrasjúkdómum og umhverfisvernd,“ segir Njáll Trausti í grein sem birtist á Akureyri.net í morgun.

Aukaafurðir dýra eru sá hluti sem ekki er nýttur til matvælaframleiðslu. Slíkar afurðir falla til við veiðar, slátrun, frumframleiðslu matvæla sem og aðra matvælaframleiðslu, í náttúrunni, á sveitabæjum, í sjávarútvegi, við slátrun og vinnslu á mjólkurafurðum. Fólki og dýrum í nánd getur stafað áhætta af aukaafurðum, sem unnt væri að minnka með viðeigandi meðhöndlun.

Njáll Trausti segir ljóst að ríkisvaldið þurfi að tryggja fjármögnun söfnunarkerfis dýraleifa á landsvísu í áhættuflokki eitt. „Vegna kostnaðar verður einungis ein slík úrvinnsla reist á Íslandi. Það skyldi vera á Dysnesi í Eyjafirði. Að þessu verkefni verða margir að koma eigi vel að vera. Sveitarfélög, afurðastöðvar og atvinnurekendur í landbúnaði þurfa hér að taka virkan þátt.“

Smellið hér til að lesa grein Njáls Trausta