Fara í efni
Fréttir

„Stóri plokkdagurinn“ er á laugardaginn

Stóri plokkdagurinn verður haldinn næsta laugardag, 24. apríl, og þá eru Akureyringar og reyndar landsmenn allir hvattir til að tína (plokka) rusl. Þetta er í fjórða skipti sem blásið er dags sem þessa hér á landi.

„Nú er frábær tími til að hreinsa bæinn okkar og koma honum í sparifötin fyrir sumarið, enda er ýmislegt sem kemur í ljós þegar snjórinn hopar á vorin. Plokk er frábær útivera og gefandi verkefni sem eflir núvitund og gerir umhverfinu gott. Plokkið kostar ekkert og kallar ekki á búnað eða tæki nema þá helst ruslapoka og hanska,“ segir á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Í Facebook-hópnum Plokk á Akureyri er tilvalið að hafa samband við aðra plokkara, merkja sér svæði til að hreinsa og láta vita hvernig gengur með máli og myndum.

Afrakstur plokksins má skilja eftir í sérstökum gámum sem settir verða við allar grenndarstöðvar um helgina.

Á síðu bæjarins eru stjórnendur og starfsfólk stofnana og fyrirtækja á Akureyri hvattir til að plokka í kringum sína vinnustaði í vikunni og hita þannig upp fyrir stóra daginn.

Fólki eru síðan gefin nokkur góð ráð:

  • Plokkum og hreyfum okkur í leiðinni – æfing dagsins
  • Klæðum okkur eftir veðri
  • Notum hanska og tangir ef þær eru til
  • Virkjum alla fjölskylduna, vini og nágranna en hver á sínum hraða
  • Virðum fjarlægðarmörk