Fara í efni
Fréttir

„Stórfellt skemmdarverk“ á merkri iðnaðarsögu

Við þessar aðstæður sem mér finnst óbærilegar, segi ég því af mér sem stjórnarmaður Iðnaðarsafnsins,“ segir Þorsteinn meðal annars í úrsagnarbréfi til stjórnar safnsins. Mynd af Facebook-síðu Iðnaðarsafnsins.

Þorsteinn Einar Arnórsson segir í bréfi sínu til félaga sinna í stjórn Iðnaðarsafnsins, þar sem hann segir sig úr stjórninni, að verið sé að vinna „STÓRFELLT skemmdarverk“ á þeirri merku iðnaðarsögu sem Iðnaðarsafnið hefur að segja.

Þorsteinn hefur setið í stjórn Iðnaðarsafnsins frá upphafi þess, eða í 25 ár. Hann er ósáttur við það hvernig ætlunin er að reka safnið eftir að það verður fært undir Minjasafnið og segir ekkert tillit hafa verið tekið til þeirra tillagna sem stjórn Iðnaðarsafnsins hafi sett fram á fundi með fulltrúa Akureyrarbæjar.

„Nú ætlar Akureyrarbær að setja Iðnaðarsafnið undir stjórn Minjasafnsins án nokkurra þeirra tillagna sem við í stjórn Iðnaðarsafnsins settum fram á fundi með fulltrúa Akureyrarbæjar.

Ef það fer sem horfir og í raun fram kemur í tillögum Akureyrarbæjar að viðvera starfsmanns og opnunartími Iðnaðarsafnsins verði skertur hið minnsta er verið að vinna stórfellt SKEMMDARVERK! á þeirri merku iðnaðarsögu sem Iðnaðarsafnið á Akureyri hefur verið að segja.

Við þessar aðstæður sem mér finnst óbærilegar, segi ég því af mér sem stjórnarmaður Iðnaðarsafnsins,“ segir Þorsteinn meðal annars í úrsagnarbréfi til stjórnar safnsins.

Þorsteinn hefur ekki viljað tjá sig frekar um málið, en bréf hans til stjórnarinnar er svohljóðandi:

Kæru félagar í stjórn Iðnaðarsafnsins.

Ég man það eins og það hafi gerst í gær þegar Jón S. Arnþórsson kom til mín á skrifstofu Iðju, félags Verksmiðjufólks þegar ég var formaður félagsins þann 29. janúar 1998 og sagði mér frá fyrirhugaðri stofnun Iðnaðarsafnsins og rétti mér blað yfir borðið með þeim orðum, það á að vera þriggja manna stjórn, það var þitt fólk sem vann þarna, settu nafnið þitt hérna á blaðið.

Hin 17. júní það ár var Iðnaðarsafnið á Akureyri formlega opnað, sannkallað óskabarn Jóns. Svo er það 2004 að safnið var gert að sjálfseignarstofnun að ég verð fulltrúi Einingar-Iðju í stjórn safnsins sem ég hef verið síðan. Það fór eins fyrir mér og Jóni að stór hluti daglegs tíma míns fór í viðveru á safninu.

Nú ætlar Akureyrarbær er að setja Iðnaðarsafnið undir stjórn Minjasafnsins án nokkurra þeirra tillagna sem við í stjórn Iðnaðarsafnsins settum fram á fundi með fulltrúa Akureyrarbæjar.

Ef það fer sem horfir og í raun fram kemur í tillögum Akureyrarbæjar að viðvera starfsmanns og opnunartími Iðnaðarsafnsins verði skertur hið minnsta er verið að vinna stórfellt SKEMMDARVERK! á þeirri merku iðnaðarsögu sem Iðnaðarsafnið á Akureyri hefur verið að segja.

Við þessar aðstæður sem mér finnst óbærilegar, segi ég því af mér sem stjórnarmaður Iðnaðarsafnsins.

Megi ykkur farnast vel í ykkar störfum og hafið þökk fyrir samstarfið í gegnum árin.

Með baráttukveðju.

Þorsteinn Einar Arnórsson.


Þorsteinn Einar Arnórsson, þáverandi stjórnarmaður í Iðnarsafninu, og Sigfús Ólafur Helgason safnstjóri fylgja Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, í gegnum iðnaðarsögu Akureyrar. Mynd: Þorgeir Baldursson.