Stöðugleikar Samtaka atvinnulífsins í Hofi
Samtök atvinnulífsins (SA) halda Stöðugleikana í Hofi á Akureyri næstkomandi mánudag, 29. apríl, frá klukkan 11.30 til 13.30.
Á fundinum munu Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags Þingeyinga, og Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri Kötlu DMI og varaformaður SA, taka þátt í umræðum undir stjórn Sigríðar Margrétar Oddsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Þá munu Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, og Vilborg Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Bravo ehf. og kaupmaður í Centró á Akureyri, flytja hugvekjur.
„Leiðin að verðstöðugleika og bættum lífskjörum var mörkuð af Samtökum atvinnulífsins á haustmánuðum 2023 í samtali við atvinnulíf og almenning,“ segir í tilkynningu frá SA. „Í kjölfarið sýndu aðilar vinnumarkaðarins samhug og einurð í vinnu sinni við gerð stefnumarkandi langtímasamninga. Stöðugleikasamningurinn markaði vatnaskil á vinnumarkaði þar sem hóflegum launahækkunum til fjögurra ára er ætlað að skapa skilyrði fyrir stöðugleika.“
Kemur ekki af sjálfu sér
„Stöðugleiki kemur hins vegar ekki af sjálfu sér þrátt fyrir góða niðurstöðu kjarasamninga. Horfa þarf fram á veginn og tryggja að kjarasamningar verði til þess að draga úr verðbólguþrýstingi. Atvinnulíf og stjórnvöld þurfa að rísa undir sinni ábyrgð og vera samtaka. Þannig er hægt að ná tökum á verðbólgunni og eygja von um lækkun vaxta.“
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir SA hafa lagt mikið kapp á það með viðsemjendum samtakanna í vetur að gera langtímakjarasamning sem gæti byggt undir efnahagslegan stöðugleika. „Það er hins vegar ekki þannig að stöðugleiki komi af sjálfu sér. Það er mikilvægt að horfa fram á veginn og tryggja að kjarasamningarnir verði til þess að draga úr verðbólguþrýstingi. Atvinnulíf og stjórnvöld þurfa að rísa undir sinni ábyrgð. Þannig náum við aftur tökum á verðbólgunni og sköpum aðstæður fyrir stýrivaxtalækkanir,“ segir hún.
Leggja línurnar saman
Á þessum grunni hefja Samtök atvinnulífsins eftirfylgni við kjarasamninga, segir í tilkynningunni, „með hækkandi sól, undir yfirskriftinni Stöðugleikarnir. Þar mun atvinnulífið ásamt stéttarfélögum á almennum vinnumarkaði og stjórnvöldum, leggja línurnar um hvernig Stöðugleikasamningnum skuli fylgt eftir. Hvernig við getum tryggt að efnahagslegur stöðugleiki náist.“
Sigríður Margrét segist hlakka mikið til fundarins á Akureyri. „Sjálf bjó ég þar í níu ár og þykir alltaf gott að koma til Akureyrar. Ég fluttist upphaflega þangað til að stunda nám við Háskólann á Akureyri, en ílengdist eftir að ég kynntist manninum mínum og við stofnuðum fjölskyldu þar.“