Fara í efni
Fréttir

Stjórn FKA fundaði með konum á Akureyri

Þær kynntu fyrirtækin sín á fundi FKA á Akureyri á dögunum. Ólöf Ásta Salmannsdóttir, Fisk Kompaní ehf., Björk Þorsteinsdóttir, Samvirkni ehf., Sigríður Ólafsdóttir, Mögnum, og Arnheiður Jóhannsdóttir, Markaðsstofu Norðurlands. Myndir: Andrea Róberts

Konur í atvinnurekstri á Akureyri og nágrenni fengu á dögunum heimsókn frá Félagi kvenna í atvinnurekstri, FKA. Það voru formaður félagsins, Unnur Elva Arnardóttir, og framkvæmdastjórinn, Andrea Róbertsdóttir, sem komu norður og hittu 20 konur úr atvinnulífinu hér.

Fjórar konur í atvinnurekstri kynntu fyrirtæki sem þær stýra hér á Akureyri. Það voru Arnheiður Jóhannsdóttir frá Markaðsstofu Norðurlands, Björk Þorsteinsdóttir frá Samvirkni ehf., Ólöf Ásta Salmannsdóttir frá Fisk Kompaníi ehf. og Sigríður Ólafsdóttir frá Mögnum. Meðal þess sem þær ræddu var hvað felst í því að vera stjórnandi og leiðtogi.

Á fundi með akureyrskum konum í atvinnulífinu ræddi Unnur Elva um félagið, hvers vegna hún er félagskona og af hverju hún sóttist eftir formannsstöðunni. Hún segir aðalástæðuna vera samstöðuna og að tilheyra tengslaneti kvenna um allt land. Unnur Elva sleit barnsskónum á Akureyri og þekkti því nokkrar í hópnum sem hittist á Berjaya hótelinu fyrr í mánuðinum.

Stjórn FKA heimsótti einnig Agnesi Önnu Sigurðardóttur í Bjórböðunum og skoðaði nýja hótelið sem er viðbót við starfsemina þar.

Á fundi FKA, frá vinstri: Arna Sif Þorgeirsdóttir, Sif Jónsdóttir og Ásdís Sigurðardóttir.