Stefna að því að reisa braggana annars staðar
Hafist var handa um helgina við að taka niður braggana tvo á lóð Festi á Oddeyri, þar sem félagið mun reisa húsnæði fyrir Krónuverslun. Þá verður vörugeymsla við hlið bragganna brotin niður. Nánast allt úr byggingunum þremur verður endurnýtt!
Það eru GV gröfur á Akureyri sem eignuðust braggana og hjónin Sigurður Gíslason og Ásrún Árnadóttir, bændur á Steinsstöðum II í Öxnadal, nýta allt sem hægt er úr vörugeymslunni.
Guðmundur V. Gunnarsson, annar eigandi GV grafa og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir stefnt að því að reisa braggana annars staðar og nýta í starfsemi fyrirtækisins. Ekki liggi þó ljóst fyrir hvar það verði.
Lengi langað í braggana!
„Ég er búinn að bíða í mörg eftir því að braggarnir yrðu falir!“ sagði Sigurður bóndi á Steinsstöðum við Akureyri.net í morgun. „Mig langaði dálítið í þá en var þó aðallega hræddur um að þeir yrðu rifnir og sendir í brotajárn. Ég gat ekki hugsað mér það nú á tímum, þegar menn vilja helst endurnýta allt. Bæði er þetta úrvals efni og svo auðvitað hluti af sögunni,“ sagði Sigurður, þar sem hann vann við að fjarlægja auglýsingu frá N1 af norðurhlið annars braggans.
„Fasteignasali var í sambandi við Festi fyrir nokkru fyrir mig vegna braggana en málið þróaðist þannig að GV gröfur taka þá en ég nýti allt sem hægt er úr vörugeymslunni,“ sagði Sigurður, sem hefur áhuga á að nota stálgrindina til að reisa fjós; hjónin rækta nautgripi til kjötframleiðslu.
Guðmundur V. Gunnarsson segir að nánast allt úr húsunum nýtist, stálgrindur, þakefni og ýmislegt fleira. Vörugeymslan verði brotin niður, svo og sökklar undir bröggunum, en allt það efni verði til dæmis mulið og notað sem uppfyllingarefni.
Braggarnir reistir í stríðinu
Braggarnir tveir sem hér um ræðir voru byggðir af breska hernum í síðari heimsstyrjöldinni, þegar Bretar voru með talsverð umsvif í Eyjafirði. Árið 1941 hóf herinn byggingu Delta Camp á Gleráreyrum og braggarnir urðu að minnsta kosti sex. Þeir tveir síðustu, sem nú er verið að taka niður, voru lengi hluti húsnæðis byggingavörudeildar KEA.
Hjónin Ásrún Árnadóttir og Sigurður Gíslason, bændur á Steinsstöðum II í Öxnadal og sonur þeirra, Magnús Árni Sigurðarson, sem vinnur við niðurrifið með foreldrum sínum.
Braggarnir hafa lengi verið áberandi á horni Tryggvabrautar og Hvannavalla.
Forláta ofn, lengst til vinstri, sem notaður var til þurrka timbur í Byggingavörudeild KEA.
Nánast allt nýtist úr bröggunum nema spýtnarusl eins og þetta og eitthvert annað smotterí.
Fast lágt verð! Sigurður fjarlægði þessa auglýsingu frá N1 í morgun en Krónan gæti hugsanlega endurnýtt hana!
Svæðið breytist mikið þegar braggarnir tveir og vörugeymslan hverfa. Þar á horninu rís hús fyrir verslun Krónunnar sem opnuð verður haustið 2022. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.