Fara í efni
Fréttir

Stefanía ráðin prestur í Ólafsfjarðarprestakalli

Séra Stefanía G. Steinsdóttir hefur verið ráðin prestur í Ólafsfjarðarprestakalli í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi. Þetta kemur fram á vef Þjóðkirkjunnar.

Starfið var auglýst laust til umsóknar, umsókn sr. Stefaníu var sú eina sem barst og biskup Íslands staðfesti ráðninguna í vikunni.

Á vef þjóðkirkjunnar segir: Sr. Stefanía Steinsdóttir er fædd þann 2. maí árið 1980. Hún er fædd og uppalin á Akureyri. Sr. Stefanía varð stúdent frá Verkmenntaskólanum á Akureyri árið 2001. Hún tók BS gráðu í líftækni og hóf þá masters nám í auðlindafræði í Háskólanum á Akureyri. Hún lauk BA gráðu í guðfræði árið 2015 og mag. theol. prófi frá Háskóla Íslands í júní árið 2017.

Sr. Stefanía var æskulýðsleiðtogi í Neskirkju árin 2015-2017 áður en hún vígðist til prestsþjónustu í Glerárprestakalli í ágúst árið 2017. Þá hefur hún verið í afleysingu í Akureyrarkirkju og nú síðast í Ólafsfjarðarkirkju.

Sr. Stefanía er í sambúð með Sólveigu Helgadóttur markþjálfa og eru börn Stefaníu fjögur Guðrún Linda, Hákon Valur, Andrea og Dagur Valur.