Starfsmenn bæjarins í alvarlegu rútuslysi
Þrír voru fluttir slasaðir til Reykjavíkur með þyrlu og fjórir með sjúkraflugi frá Akureyri eftir að rúta á norðurleið valt skammt sunnan við Blönduós á sjötta tímanum í nótt. Enginn er sagður í lífshættu.
Hópur starfsmanna Akureyrarbæjar var í rútunni; hópurinn, sem lenti á Keflavíkurflugvelli um miðhætti, var á heimleið eftir námskeið og ráðstefnu í Portúgal.
Vilhjálmur Stefánsson, hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, segir í samtali við RÚV að aðkoman að rútuslysinu hafi verið óhugnanleg en enginn hafi verið í lífshættu. „Aðkoman var ekki góð. Fólk slasað og blóð út um allt – fólk í angist. En það náðist strax stjórn á vettvangi og fólk var nokkuð rólegt,“ segir hann við RÚV.
Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra á Akureyri, var mjög brugðið við fréttirnar. „Það er alltaf skelfilegt þegar það verða slys en manni verður mjög brugðið þegar það er samstarfsfólk,“ segir hún við RÚV. Hún segir starfsfólkið hafa verið á námskeiði og ráðstefnu í Portúgal. „Starfsmaður frá okkur hefur verið í sambandi við fólkið. Við vitum ekki meira en það sem hefur komið fram í fjölmiðlum,“ segir bæjarstjórinn.