Fara í efni
Fréttir

Starf upplýsingafulltrúa verður lagt niður

Björn Þorláksson og Sól, dóttir hans.

Staða upplýsingafulltrúa Umhverfisstofnunar verður lögð niður frá og með næstu mánaðamótum. Björn Þorláksson, fjölmiðlamaður og rithöfundur, hefur gegnt því starfi í fjögur ár, búsettur á Akureyri.

Þegar Björn er spurður um ástæðu þessa vísar hann í bréf forstjóra stofnunarinnar til starfsmanna í síðustu viku: „Ástæða breytingarinnar er endurskipulagning vegna aukinnar áherslu stofnunarinnar á framfylgd stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar í stafrænni þróun og almenn aðhaldskrafa fyrir rekstur stofnunarinnar.“ Það er nefnilega það ...

Þarf mikinn vilja

„Þegar Kristín Linda Árnadóttir, þáverandi forstjóri Umhverfisstofnunar, réði mig úr hópi 80 umsækjenda fyrir fjórum árum, og ég var að ég held eini umsækjandinn utan höfuðborgarsvæðisins, lá fyrir að það þyrfti mikinn vilja, bæði norðan og sunnan megin, til að ég gæti gegnt starfi upplýsingafulltrúa á starfstöðinni hér á Akureyri. Þetta djobb hafði alltaf verið í Reykjavík en við tvö ákváðum að reyna að starfrækja það úti á landi. Í raun gekk það mjög vel. Þegar Kristín Linda hætti og nýr forstjóri tók við, á sama tíma og ég var fjarverandi frá vinnu um skeið eftir slæmt ökklabrot og blóðtappa, áttaði maður sig á að það væri ekki sjálfgefið að arftaki fráfarandi forstjóra hefði til dæmis sömu áherslur í byggðamálum,“ sagði Björn við Akureyri.net í dag.

„Þetta hefur verið mjög lærdómsríkur tími og frábært námskeið í stjórnsýslu, og ég mun sakna starfsfólksins – einkum góðra vina minna hér á stofnuninni á Borgum. Umhverfismál eru mikilvægasti málaflokkur samtímans og miðlun upplýsinga til almennings og atvinnulífs er höfuðforsenda þeirra breytinga sem verða að eiga sér stað ef okkur á að takast að bjarga heiminum frá eyðingu. Undanfarin ár hefur umfjöllun um umhverfismál komist í hæstu hæðir samkvæmt mælingum sem Creditinfo heldur utan um. Ég er mjög stoltur af þeirri athygli sem störf okkar hafa fengið og vona að ekki verði bakslag, því allt er undir.“

Viltu stofna útvarpsstöð?

Björn segir ekki ljóst hvað hann tekur sér næst fyrir hendur, „en mér finnst ekki ólíklegt að ég dusti rykið af pr-mennsku, fjölmiðlastörfum – eða skáldinu í mér. Það hefur ekki gefist tími til að skrifa bækur síðastliðin ár. Mér finnst ég skulda landsmönnum og sérstaklega Akureyringum eina bók eftir að mér var sýndur sá heiður að vera valinn bæjarlistamaður Akureyrar vegna fyrri rithöfundarstarfa minna,“ segir Björn.

Bætir svo við, ef til vill í gamni en án efa líka í einhverri alvöru: „Væri kannski einhver til í að opna með mér útvarpsstöð hér fyrir norðan? Útvarp Norðurland?“