Stækka gagnaverin og heimta glatvarma
Stækkun tveggja gagnavera atNorth á Íslandi er hafin, bæði í Reykjanesbæ og á Akureyri. Heildarfjárfesting fyrirtækisins vegna stækkunarinnar er 41,2 milljarðar króna, að því er segir í tilkynningu „en við bætist fjárfesting viðskiptavina fyrirtækisins í tölvubúnaði sem nemur nálægt 300 milljörðum króna.“
Fyrirtækið hefur einnig tilkynnt að það hafi gengið til samstarfs við Hringvarma um heimt glatvarma frá gagnaverunum til að nota í matvælaframleiðslu. Hringvarmi kemur til með að setja upp frumgerð búnaðar síns gagnaveri atNorth á Akureyri og nota hitann frá gagnaverinu til að rækta grænspírur (e. microgreens) í samstarfi við Rækta Microfarm.
Gagnaver atNorth á Akureyri.
„Okkur er mikil ánægja að vera með í vistkerfi hátæknigagnavera atNorth. Markmið samstarfsins er að efla íslenskan landbúnað og draga úr þörf fyrir innfluttar vörur um leið og við leggjum lóð á vogarskál hringrásarhagkerfisins á Íslandi,“ er haft eftir Justine Vanhalst, meðstofnanda Hringvarma, í tilkynningu atNorth.
Aukin eftirspurn
„Með stækkun gagnaveranna mætum við aukinni eftirspurn eftir þjónustu atNorth bæði frá erlendum og innlendum viðskiptavinum, en stækkunin er í samræmi við sjálfbæra vaxtarstefnu atNorth og byggir á fyrirliggjandi byggingarleyfum og samningum um orkukaup,“ segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth. „Á Akureyri og í Reykjanesbæ er til staðar mikil þekking, mannauður og traust fyrirtæki sem geta veitt atNorth góða þjónustu við rekstur og viðhald á tæknibúnaði í gagnaverum fyrirtækisins.“
Í tilkynningu atNorth segir að um sé að ræða umfangsmestu stækkun sem íslenskt gagnaver hafi ráðist í „og innifelur umtalsvart magn af hátæknibúnaði. Leigja þurfti sérhæft flutningaskip til að flytja hluta búnaðarins og kallaður var til stærsti krani landsins til að hífa búnaðinn inn á lóð gagnaversins.“
Auk gagnaveranna í ICE02 Reykjanesbæ og á ICE03 Akureyri rekur atNorth gagnaverið ICE01 í Hafnarfirði, en hjá fyrirtækinu starfa yfir 160 manns, fyrir utan verktaka.
Eins og er rekur atNorth sjö gagnaver í fjórum af fimm Norðurlöndunum. Þá eru fjögur ný gagnaver í byggingu, tvö í Finnlandi (FIN02 í Helsinki og FIN04 í Kouvola) og tvö í Danmörku (DEN01 í Ballerup og DEN02 í Ølgod í Varde).