Spyrja hvort bærinn ætli að snuða íbúana
Hilda Jana Gísladóttir oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri og Sunna Hlín Jóhannesdóttir oddviti Framsóknar segja allt útlit fyrir að meirihluti Sjálfstæðisfokks, Miðflokks og L-lista í bæjarstjórn Akureyrarbæjar ætli sér að snuða launþega um kjarabót sem flestir íbúar landsins hafi nú þegar fengið.
Þetta kemur fram í grein þeirra sem birtist á Akureyri.net í dag.
Hér er ræðir um fólk „sem samþykkti kjarasamninga með mjög hóflegum launahækkunum, í þeirri trú að þeirra sveitarfélag myndi standa við gefin loforð og lækka gjaldskrár sveitarfélaga er varðar barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu,“ segja þær í greininni og jafnframt að þrátt fyrir að samþykkt hafi verið í bæjarstjórn í mars að lækka gjaldskrár í samræmi við umrætt samkomulag hafi lækkanir ekki orðið að veruleika.
„Í hverjum einasta mánuði verða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu því af þeim kjarabótum sem um var samið,“ segir í greininni og skorar þær Hilda Jana og Sunna Hlín á meirihlutann „að sjá sóma sinn í því að snuða ekki barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðum með þessum hætti. Það er enn tími til að bregðast við og tryggja að gjaldskrárnar lækki síðustu fjóra mánuði ársins.“
Þær segjast í þrígang hafa óskað eftir umræðu í bæjarráði um það hvernig eigi að framfylgja þessari ákvörðun bæjarstjórnar, „en í tvígang aðeins fengið loðin og óskýr svör, en í þriðja sinn er málið til umfjöllunar í fyrramálið. Enn hafa gjaldskrár ekki verið lækkaðar og reyndar þvert á móti samþykkti fræðslu- og lýðheilsuráð í vikunni gjaldskrár fyrir leikskóla, frístund og ávaxta- og mjólkuráskrift þar sem engar lækkanir á gjaldskrám er að finna og vísuðu málinu til bæjarráðs til loka samþykktar. Formaður þeirrar nefndar er jafnframt formaður bæjarráðs og því varla hægt að ætla annað en að meirihlutinn ætli sér einfaldlega ekki að standa við það samkomulag sem gert var og bæjarstjórn samþykkti.“
Smellið hér til að lesa grein Hildu Jönu og Sunnu Hlínar