Fara í efni
Fréttir

Spáir vondu veðri á Öxnadalsheiði

Hvasst verður og blint á Öxnadalsheiði eftir klukkan 12.00 en skánar talsvert undir kvöld þegar hann snýr sér í norðvestanátt, segir á vef Vegagerðarinnar.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir horfurnar „ekkert sérstakar í dag norðantil á landinu, því vindur er hvass og með skafrenningi nokkuð víða á fjallvegum sem og éljagangi.“

Einar bendir á að vindáttin skipti máli og „hann er á að snúa sér úr SV- og V-átt í NV og N-átt í kvöld,“ segir hann.

„Á Öxnadalsheiði nær vindur og skafrenningur sér vel upp á meðan vindáttin er SV eða V. Um 20 m/s því nú frá um hádegi og til um kl. 18. Þá hins vegar skánar mikið þegar vindáttin snýst til NV.“

Svipað verður upp á teningnum á Holtavörðuheiði og í Bröttubrekku, segir Einar, en um leið og vindátt breytist skáni aðstæður. Hann segir að fólk gæti sætt lagi á milli klukkan 17.00 og 21.00.