Fara í efni
Fréttir

Sólskin, snekkja og andvari úr suðri

Snekkjan Satori á Pollinum í gærkvöldi. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Rigning á Akureyri í gær varð að frétt á landsvísu, enda hafði ekki komið einn einasti dropi úr lofti í 20 daga og einungis fáeinir dropar í heilan mánuð. Ekki rigndi lengi og þegar stytti upp síðdegis varð allt eins og áður; sólin skein og þegar fólk hafði þurrkað af gleraugunum blasti glæsileg snekkja við á Pollinum. Myndirnar eru teknar í gærkvöldi.

„Er Akureyri að verða Mónakó norðursins?“ spurði ónefndur Akureyringur blaðamann. Tæpast er svo, snekkju sem þessa má reyndar jafnan sjá í höfninni suður þar en aldrei bara eina í einu! Hin fræga A var lengi á Akureyri fyrr í sumar, svo snekkjufólk virðist kunna vel að meta Norðurland.

Fréttavefur Morgunblaðsins, mbl.is, upplýsir í morgun að lystisnekkja þessi nefnist Satori og hafi verið á ferð kringum landið að undanförnu. Hún mun hafa komið við á Akureyri áður í sumar. Snekkjan er sögð í eigu bandarísks auðkýfings, Jay Alix, smíðuð 2018 og hafi kostað 75 milljónir dollara, andvirði um níu milljarða króna. 

Þess má geta að sól og sunnan andvari buðu Akureyringum góðan dag í morgun.