Fara í efni
Fréttir

Sólríkast og hlýjast í júlí á Norðausturlandi

Fallegt sumarkvöld á Akureyri í júlí 2024.

Samkvæmt tölum Veðurstofunnar var besta veðrið í júlí á Norður- og Austurlandi.  Hins vegar var óvenju blautt og þungbúið á suðvestan- og vestanverðu landinu.   

Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar var júlímánuður tiltölulega hlýr á norðanverðu landinu, en svalara sunnanlands. Loftþrýstingur var óvenju lágur í mánuðinum, vindhraði var yfir meðallagi og tíð var nokkuð óhagstæð miðað við árstíma. Það var óvenju blautt og þungbúið á suðvestan- og vestanverðu landinu. Á nokkrum veðurstöðvum á Vesturlandi var júlíúrkoman sú mesta sem mælst hefur. Þurrara og sólríkara var á Norður- og Austurlandi.

Hiti á Akureyri yfir meðallagi

Meðalhiti í Reykjavík í júlí var 11,0 stig. Það er 0,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 12,7 stig, 1,5 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,3 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára.  Í Reykjavík mældust 110,9 sólskinsstundir í júlí sem er 72,3 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 175,0 sem er 22,5 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 1,7 stig á Staðarhól í Aðaldal. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -0,6 stig á Þingvöllum.