Fara í efni
Fréttir

Sólgarður hefur verið auglýstur til sölu

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Sólgarður í Eyjafjarðarsveit hefur verið auglýstur til sölu. Þar er nú hið stórmerkilega Smámunasafn Sverris Hermannssonar en áður var Sólgarður félagsheimili Saurbæjarhrepps hins forna og er elsta félagsheimili í Eyjafjarðarsveit. 

„Ekki er getið um stærð eignarinnar í skrám Þjóðskrár Íslands en skv. grófum mælingum er stærð eignarinnar nálægt 750 fm,“ segir í tilkynningu frá Fasteignasölunni Byggð á Akureyri.

„Óskað er eftir tilboðum í eignina þar sem getið er um fjárhæð og lýsingu tilboðsgjafa á hvers kyns starfsemi fyrirhuguð er í eigninni. Við mat á tilboðum áskilur seljandi sér rétt til að horfa m.a. til fyrirætlana tilboðsgjafa um framtíðarnýtingu eignarinnar. Seljandi áskilur sér rétt til þess að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum.“

Tilboðsfrestur er til klukkan 12.00 á hádegi föstudaginn 28. október. Tilboðum skal skila á fasteignasöluna Byggð á Akureyri

Áhyggjur af framtíð safnsins

Í umfjöllun Akureyri.net fyrr á árinu lýsti safnstýra Smámunasafnsins, Sigríður Rósa Sigurðardóttir, áhyggjum af þeirri óvissu sem ríkti um framtíð safnsins. Reynslan sýnir, sagði Sigríður Rósa þá, að söfn sem sett eru í geymslu eigi sjaldan afturkvæmt. „Smámunasafn Sverris Hermannssonar er einstakt og það er perla sem ekki má afskrifa“, segir hún.

Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor í safnafræði við Háskóla Íslands, tók í sama streng. „Er ég heyrði af því að tilvera safnsins væri í hættu vegna sölu á þeirri aðstöðu sem það er í og að ætlunin sé að pakka því niður, þá setti mig hljóðan,“ segir hann í samtali við Akureyri.net í júní.

Einstakt safn – perla sem má ekki afskrifa

Framtíð Freyvangs, Laugalands og Sólgarðs

Pistill Arnórs Blika Hallmundssonar um Sólgarð