Sól og hlýindi áfram að sögn spámanna
Veður hefur verið afar gott á Akureyri og nágrenni síðustu daga og útlit er fyrir áframhaldi blíðu. Því mun viðra vel til golfs og annarrar útiveru eins og í gærdag. Líklega til skíðaferða á Kaldbak.
Samkvæmt spá Einars Sveinbjörnssonar hjá Bliku gæti hiti í dag, föstudag, orðið allt að 20 stigum um hádegi og aftur síðdegis, auk þess sem hann telur ekki von á dropa úr lofti. Veðurstofa lýðveldisins, sem spáir líka góðum hita, þótt mælir stofnunarinnar fari ekki alveg jafn hátt og græja Einars, gerir hins vegar ráð fyrir töluverðri rigningu um það leyti sem kvöldfréttir hefjast á útvarpsstöð ríksins.
Bæði Einar og Veðurstofan spá mjög góðu veðri á morgun, laugardag, og a.m.k. fram yfir hádegi á sunnudaginn. Þá verður hægt, skv. Bliku, að grípa til setningarinnar að veðrið sé gott fyrir gróðurinn; þá rigni sem sagt, en Veðurstofan er ósammála því og spáir sól og brakandi þurrki allan daginn.
Heimamenn á Akureyri og gestir ættu því til öryggis að hafa bæði sólarvörn og regnstakk við hendina. Meiri líkur virðast þó á að sólarvörnin komi í góðar þarfir ...