Fara í efni
Fréttir

Sögulegt ár – aldrei fleiri gestir eða viðburðir

Um 49.000 manns heimsóttu Minjasafnið á Akureyri, sýningar, viðburði og safnfræðslu, árið 2022 og hafa aldrei verið fleiri. Viðburðir á vegum safnsins hafa heldur aldrei verið fleiri á einu ári og var vel við hæfi því 60 ára afmæli safnsins var þá fagnað.

„Árið 2022 var sögulegt ár hjá Minjasafninu á Akureyri í mörgum skilningi þess orðs,“ segir Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri, við Akureyri.net.

Sýningastaðirnir eru sex; Minjasafnið við Aðalstræti, Nonnahús, Minjasafnskirkjan, Leikfangahúsið í Friðbjarnarhúsi, Davíðshús og minjastaðurinn Laufási ásamt Gestastofu.

Flestir gesta heimsóttu Laufás eða tæplega 18.000 manns en skammt á eftir kom Minjasafnið með 15.000 gesti. Ferðaþjónusta safnsins fer sífellt vaxandi, að sögn Haraldar, og voru um 30.000 gestanna á síðasta ári erlendir ferðamenn. Fjölskyldur og börn eru sívaxandi hópur gesta og heimsóttu rúmlega 1000 börn Friðbjarnarhús eða rétt um helmingur gesta.

Safnið fagnaði 60 ára afmæli á árinu með 48 viðburðum sem haldnir voru á sjö mánaða tímabili. Þetta voru fjölbreyttir viðburðir, sögugöngur, leikfanga- og tónlistarsmiðjur, ljóðadagskrár og tónleikar, svo nokkur sé upptalið. „Fjölmennustu viðburðinir voru draugaslóð í Innbænum í ágúst og 17. júní en í desember fylltist safnhúsið við Aðalstræti af börnum og fullorðnum á þéttri jóladagskrá.“

Verslun Kaupafélags Eyfirðinga við Grænumýri. Ein mynda á sýningunni Hér stóð búð, sem vakti mikla lukku á síðasta ári.

„Við héldum afar vinsælar sýningar á árinu. Ljósmyndasýningin Hér stóð búð var framlengd oftar en síðasta Sjallaballið! Það sama gerðist með sýninguna í Skugganum,“ segir Haraldur.

Þá hlaut safnið Íslensku safnaverðlaunin árið 2022, sem veitt eru annað hvert ár, sem hefur án efa ýtt undir heimsóknir á safnið, segir Haraldur. „En það hefur ekki síður ýtt undir ítrekaðar safnaheimsóknir að miðinn okkar gildir ekki aðeins á öll söfnin heldur út árið. Það er því afar gott fyrir fjölskyldur að nýta sér söfnin í afþreyingarskini eins og sýndi sig á síðasta ári,“ segir safnstjórinn.