Fara í efni
Fréttir

Snjó kyngir niður seinni hluta vikunnar

Allt útlit er fyrir norðanátt á Akureyri og annars staðar á Norðurlandi næstu daga og líklega fram yfir næstu helgi. Þrátt fyrir vindáttina verður þó ekki mjög kalt, að sögn Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðings hjá blika.is.

Úrkoma verður einkum utantil í Eyjafirði næstu daga og til dæmis er spáð 100 millimetra úrkomu í Ólafsfirði fram á miðvikudag, reyndar slyddu og að bleytusnjór verði í bænum. Hins vegar verður lítil úrkoma innan til í Eyjafirði í dag og á morgun en það breytist seint á miðvikudag. Frá fimmtudegi til laugardags eða jafnvel sunnudags eru horfur á að snjó kyngi niður á Akureyri, sagði Einar eftir að hafa rýnt í tiltæk gögn fyrir Akureyri.net, en hiti verður rétt við frostmark og vindur tiltölulega hægur.

Spáin ætti því að teljast viðunandi fyrir bílstjóra og gangandi en mjög góð fyrir skíðamenn.

Veðurvefur Bliku