Fara í efni
Fréttir

SN hljómar á 50 ára afmælissýningu Disney World

Tónlist sem Sinfóníuhljómsveit Norðurlands – SinfoniaNord (SN) hljóðritaði í Hofi í júlí verður leikin á aðal kvöldsýningu í Disney World skemmtigarðinum í Flórida næstu misseri. Hún hljómar fyrst að kvöldi 1. október, þegar ný kvöldsýning verður frumsýnd en þá hefjast með pompi og prakt hátíðarhöld í tilefni 50 ára afmælis skemmtigarðsins.

Sinfóníuhljómsveitin tók upp tónlistina fyrir Disney í júlí en fékk ekki miklar upplýsingar um verkefnið, eins og reyndin er gjarnan þegar stórfyrirtæki eiga í hlut, að sögn Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar, tónlistarstjóra Menningarfélags Akureyrar.

„Stórkostleg hljómsveit“

„Við erum hér á Íslandi að taka upp þessa stórkostlegu hljómsveit. Það er alltaf góð tilfinning að hlýða á 70 manna hljómsveit leika tónlist sem maður hefur útsett,“ segir Tim Heintz, forstöðumaður listrænnar þróunar þeirrar deildar hjá Disney sem undirbýr sýninguna, í myndbandi sem birt hefur verið á heimasíðu skemmtigarðsins.

Lagið sem heyra má í meðfylgjandi myndbandi, You Are The Magic, verður einkennislag kvöldsýningarinnar við Magic Kingdom, kastalann fræga í garðinum. Höfundur þess er Philip Lawrence, sjöfaldur Grammy verðlaunahafi, sem syngur sjálfur ásamt söngkonunni Kayla Alvarez.

Lagið er eitt margra sem SN tók upp fyrir Disney; SN er hljómurinn undir allri sýningunni. Greta Salóme, konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, segist strax hafa fundið fyrir hinum sérstaka Disney galdri þegar hún lék tónlistina fyrsta sinni. „Það var eins og að standa við Magic Kingdom og horfa á flugeldasýninguna,“ segir hún í myndbandinu.

Tilbúinn með bókunarpennann!

SinfoniaNord hefur tekið upp fyrir mörg, stór verkefni fyrir erlend fyrirtæki undanfarin misseri. Disney hljómar jafnan mjög stórt; getur Þorvaldur Bjarni metið hvert Disney verkefnið sé stærra eða merkilegra en önnur?

„Það er erfitt að meta það. Við erum á BBC, Netflix, tölvuleikjum Sony, SIMS-leiknum, Lionsgate, RUV og fjölmörgum Indie myndum. En að vera Center Stage á afmælishátíð Disney er árangur sem tekið verður eftir um allan heim. Ég er tilbúinn með bókunarpennann!“ segir Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar, við Akureyri.net.

Smellið hér til að sjá myndbandið frá Disney.