Slökkviliðsstjóri: Göngin „dauðagildra“
Slökkviliðsstjóri Fjallabyggðar segir Ólafsfjarðargöng ekkert annað en dauðagildru og hið sama eigi við um Strákagöng, norðan Siglufjarðar. Hann segir klæðningu í göngunum ólöglega og mjög eldfima; ef kvikni í gætu göngin logað enda á milli. Hann segir ekki klæðningu á því svæði í göngunum þar sem heimagerð sprengja var sprengd á dögunum, sem kalla megi lán í óláni.
„Svo ég tali bara íslensku þá er ástandið algjör martröð,“ sagði Ámundi Gunnarsson, slökkviliðsstjóri í Fjallabyggð, í samtali við Akureyri.net í dag, spurður hvernig ástand öryggismála væri í Ólafsfjarðargöngum – Múlagöngum, eins og þau eru líka nefnd, enda liggja þau í gegnum fjallið Ólafsfjarðarmúla. Göngin eru einbreið og 3,4 km löng; um þau liggur vegurinn frá Ólafsfirði áleiðis til Dalvíkur.
Verður að steypusprauta klæðninguna
„Göngin eru klædd með plasteinangrun, sem búið var að banna í Noregi þegar göngin voru gerð; ekki má nota þessa klæðningu nema steypu sé sprautað yfir hana – eins og gert var í Héðinsfjarðargöngunum – en Vegagerðin sleppti því á sínum tíma og þar við situr. Við höfum verið að berjast fyrir þessu síðan en það virðist Vegagerðinni ekki þóknanlegt að setja peninga í þetta. Þar hafa menn talað um að göngin séu gömul og erfitt sé við þetta að eiga, en ég hef bent á að þau séu samgöngumannvirki og samkvæmt samgöngulögum beri eigendum slíkra mannvirkja að sjá til þess að brunavörnum sé viðhaldið,“ segir Ámundi.
Tugir manna gætu látist
Göngin í gegnum Múlann voru tekin í notkun í lok árs 1990 og vígð snemma árs 1991. „Þarna er í raun ekki neitt til neins, til dæmis ekkert útvarpssamband sem á þó að vera fyrir hendi samkvæmt reglugerð; útvarpssending á að vera fyrir hendi í göngum sem eru lengri en 500 metrar, en svo er ekki í neinum af göngunum hér á Tröllaskaga. Í Ólafsfjarðargöngunum er gsm samband og viðbragðssímar við slökkvitækin en þar með er upptalið,“ sagði Ámundi.
„Göngin eru einbreið og ef kviknar í öðrum endanum er ekki öruggt að hægt sé að koma boðum til fólks á leið inn í göngin hinum megin um að hætta sé á ferðum. Þar gæti verið olíubíll á ferð eða 60 manna rúta og á sumrin er mikið um bíla með aftanívagna; þannig farartæki snúa ekki við í göngunum,“ segir Ámundi. „Já, göngin eru ekkert annað en dauðagildra,“ segir Ámundi aðspurður.
Hann segist margoft hafa bent á að 100 til 150 manns geti hæglega verið á ferð í göngunum í einu og kæmi eitthvað uppá gæti orðið þar mikil ringulreið. „Ef kviknaði í við slíkar aðstæður gætu tugir manna látist í göngunum. Klæðningin er nokkuð samfelld, og ef kviknar í gætu göngin logað enda á milli. Mér skilst að þetta sé sambærilegt efni og var í blokkinni í London sem brann fyrir nokkrum árum með hræðilegum afleiðingum. Þótt við höfum barist fyrir því lengi að bætt verði úr er ekki við það komandi.“
Alvarlegar athugasemdir
Ámundi nefnir einnig að Héðinsfjarðargöng, tvenn göng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, alls 11 km löng, hafi aldrei verið kláruð. Þau voru tekin í notkun 2010. „Samgöngustofa tók göngin út í september, eftir að fórum fram á það, gerði alvarlegar athugasemdir og fór fram á að Vegagerðin gerði grein fyrir því hvenær ráðist verði í úrbætur.“ Ámundi segir málið snúast um að ljós vanti í vegkantinn til að auðvelda fólki að komast út ef eldur kviknar í göngunum. „Við vitum að reykur leitar upp og getur blokkerað lýsinguna. Vegagerðin svarar því til að göngin hafi verið flott og fín þegar þau voru tekin í notkun og við ekki gert athugasemdir þá. En staðreyndin er sú að okkur var haldið frá málinu á sínum tíma,“ segir Ámundi Gunnarsson, slökkviliðsstjóri í Fjallabyggð.