Fara í efni
Fréttir

Slökkviliðsmenn gáfu 34 matarpakka

Starfsmenn Slökkviliðs Akureyrar tóku sig til og keyptu 34 vel útilátna matarpakka í dag og færðu Sigrúnu Steinarsdóttur, sem heldur úti Facebook síðunni Matargjafir Akureyri og nágrenni. Smellið hér til að fara á Facebook síðuna.

„Þetta kom þannig til að við heyrðum að það væri mikill eftirspurn eftir matargjöfum, og aldrei hafi fleiri óskað eftir aðstoð,“ sagði einn starfsmanna Slökkviliðsins við Akureyri.net í dag.

Upphaflega hugmyndin var að nýta jólagjöf Akureyrarbæjar til starfsmanna, sem vanalega hefur verið lambahryggur, að hans sögn. Þegar ljóst var að breyting yrði þar á kviknaði sú hugmynd að slökkviliðsmenn legðu allir í púkkið auk þess sem starfsmannafélagið lagði til fé.

Þeir starfsmenn sem voru á vakt í dag fóru svo í verslunarleiðangur, röðuðu í matarpakka og afhentu Sigrúnu. Hún mun sjá um úthlutun matarpakkana.

„Okkur starfsmönnum Slökkviliðs Akureyrar finnst heiður að fá að taka þátt í þessu verkefni og geta lagt hönd á plóg. Við erum sterkt og vaxandi samfélag sem verðum að standa saman. Það eiga allir skilið gleðileg jól,“ sagði viðmælandi Akureyri.net.