Fara í efni
Fréttir

Slökkt á formanni Einingar-Iðju í miðri setningu

Umfangsmiklar breytingar á gjaldskrá leikskóla Akureyrarbæjar, það sem í kosningaloforðum hét gjaldfrjáls leikskólapláss, voru kynntar á þremur fjarfundum sem fræðslu- og lýðheilsuráð Akureyrarbæjar boðaði til á þriðjudaginn. Hörð gagnrýni hefur komið fram á þessar breytingar, framsetningu þeirra og ekki síst afleiðingar þeirra fyrir þá foreldra sem ekki eiga þess kost að hafa börnin aðeins í sex tíma á leikskóla, einfaldlega vegna vinnu og heimilisaðstæðna. Bent hefur verið á að gjaldfrjáls leikskólapláss séu í raun ekki gjaldfrjáls því á endanum þurfi einhver að borga og breytingarnar bitni á þeim sem síst skyldi.

Anna Júlíusdóttir formaður verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju: „Ég var bara að ræða málin og ég var blokkuð af því að þetta var óþægilegt.“

Fundirnir voru fjölmennir og virðist sem gagnrýni á þessar breytingar hafi ekki beint átt upp á pallborðið hjá fundarboðendum. Lokað var á Önnu Júlíusdóttur, formann verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju, þegar hún hafði orðið, blokkuð í miðri setningu, ef svo má segja. Upplifun hennar af fundinum var hræðileg, að hennar sögn.

Fyrirspurnir leyfðar, en þó ekki?

Á fundunum voru Heimir Örn Árnason, formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs, Kristín Jóhannesdóttir, sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs, og Kristín Baldvinsdóttir, forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar hjá Akureyrarbæ. Eftir kynningu á nýsamþykktum breytingum á gjaldskrá leikskólanna var boðið upp á fyrirspurnir þar sem fólk gat rétt upp höndí Teams og fengið orðið. Fyrirspurnatíminn þróaðist ef til vill ekki alveg eins og fundarboðendur vonuðust til. Formaður Einingar-Iðju lét í sér heyra, var mjög gagnrýnin á þessar breytingar og var útilokuð frá frekari umræðum. 

Hún var alveg hræðileg, ef satt skal segja,“ svarar Anna Júlíusdóttir, formaður Einingar-Iðju, þegar hún er spurð um upplifun sína af fundinum. Hún segir það fólk sem kom fram með gagnrýni eða verið neikvætt einfaldlega hafa verið blokkað og ekki fengið að halda áfram þátttöku í fundinum. „Ég var bara að ræða málin og ég var blokkuð af því að þetta var óþægilegt. Það voru fleiri sem voru blokkaðir á þessum fundum og þeir sem voru eitthvað á móti vegna þess að við vorum óþægileg. Þetta átti bara einhvern veginn að vera þægilegur fundur,“ segir Anna.

Bitnar á möguleikum kvenna

Hún segir stemninguna hafa verið frekar þunga og erfiða, fólk jafnvel ekki treyst sér til að taka þátt í umræðunni, en henni rann blóðið til skyldunnar sem formaður Einingar-Iðju og lét í sér heyra. Hún viðurkennir að hafa verið aggressív í gagnrýni sinni enda þótti henni ástæða til. Þetta var mjög þungur fundur og ég held að allir hafi verið í sjokki. Ég tel að fólk hafi ekki treyst sér til að fara í þessa umræðu,segir Anna. Hún segir viðbrögðin hafa verið mikil eftir fundinn, hún hafi fengið fjölda tölvupósta og hringinga frá fólki sem þakkaði henni fyrir að taka málstað kvenna.

Ég talaði um að með þessu væri algjörlega verið að þröngva konum á þann stað sem þær ættu ekki að vera á, segir Anna. Hún vísar þar til þess að breytingin gangi út á að leikskólapláss verði gjaldfrjáls í sex tíma á dag, kl. 8-14, en í raun sé ekkert sem heiti gjaldfrjálst því þegar upp er staðið muni einhver þurfa að borga. Anna vísar til þess að fólk sem er ekki í þeirri stöðu að geta haft börnin á leikskóla aðeins þessa sex tíma verði fyrir miklum aukakostnaði vegna viðbótartímans og skráningardaga miðað við það sem fólk er að greiða í dag. Afleiðingin verði sú að þetta bitni á konum á vinnumarkaði, möguleikum þeirra á þróun og frama í starfi því það sé líklegra að lægra launaði aðili sambúðar neyðist til að stytta vinnudaginn vegna þessa aukakostnaðar. Sá aðili sé í flestum tilvikum konan. Þá eru þær að fórna sér, hætta fyrr í vinnu og þannig bitnar þetta á framför kvenna á vinnumarkaðnum,segir Anna.

60 þúsund króna hækkun á mánuði

Það fyrsta sem ég frétti af þessu er að ung kona með þrjú börn, tvö í grunnskóla og eitt í leikskóla, hún þarf að koma barninu á leikskóla kl. 7:45 og vera til 16:15. Þessir 2,5 tímar munu kosta hana 60 þúsund krónur aukalega miðað við það sem hún er að borga í dag,“ segir Anna og spyr: „Er þetta gjaldfrjáls leikskóli?“

Málinu alls ekki lokið

Anna segir málinu alls ekki lokið af sinni hálfu eða Einingar-Iðju. Við munum mótmæla þessu kröftuglega og munum biðja um fund með bæjarstjóra og þeim sem hafa með þetta að gera hjá bæjaryfirvöldum. Við munum ekki þegja vegna þess að þetta skiptir fólk miklu máli. Þó Sjálfstæðisflokkurinn hafi lofað að leikskólaplássin yrðu gjaldfrjáls þá eru þetta bara algjör svik,segir Anna Júlíusdóttir, formaður Einingar-Iðju.

Hún bætti við að endingu: „Nú hefur mér verið sagt að á fundi hjá meirihlutanum í gær hafi komið fram að allir hefðu verið rosalega ánægðir með fundinn, nema hvað þurft hefði að þagga niður í einni brjálaðri kerlingu! Mér finnst þetta mikil kvenfyrirlitning og er virkilega reið.“