Fara í efni
Fréttir

Slippurinn tekur völdin á Bryggjunni í vikunni

Sigurgeir Kristjánsson yfirkokkur á Bryggjunni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Matreiðslumeistarinn Gísli Matthías Auðunsson, yfirkokkur á Slippnum í Vestmannaeyjum, tekur völdin á Bryggjunni á Akureyri á fimmtudags- og föstudagskvöld í þessari viku. Tveir matseðlar verða í boði, 5 og og 10 rétta, þar sem verður að finna nokkra af vinsælustu réttum Slippsins, að sögn Sigurgeir Kristjánssonar yfirkokks á Bryggjunni.

Á Slippnum er áhersla lögð á hráefni úr nærumhverfinu og svo verður einnig á pop-up staðnum sem Gísli setur upp á Bryggjunni. Megnið af hráefninu verður frá Akureyri og nágrenni og eitthvað úr Eyjum.

Sigurgeir og Gísli kynntust fyrr í sumar þegar þeir elduðu saman á einkaviðburði á Norðurlandi og strax þá kviknaði sú hugmynd að þeir myndu elda saman mat af seðli Slippsins. 

Mjög spennandi

„Gísli tekur í raun yfir staðinn en ég og mínir strákar verðum með honum í eldhúsinu. Við höfum verið að undirbúa okkur á margvíslegan hátt á hverjum degi í tvær vikur,“ segir Sigurgeir. „Þetta er bæði mikil tilhlökkun og stress því alltaf getur eitthvað klikkað en það hefur reyndar ekki gerst enn! Akkúrat núna er verið að kafa eftir ígulkerjum fyrir okkur, við eigum eftir að fá þau send og hreinsa, en ég er viss um að þetta gengur allt upp,“ sagði Sigurgeir í dag.

Hann segist ekki hvað síst spenntur að gefa matreiðslunemum á Bryggjunni að taka þátt í ævintýrinu. „Það sem Gísli gerir lýsir honum vel sem matreiðslumanni, hann hefur mjög persónulegan og skemmtilegan stíl. Svo stilli ég þessu upp þannig að allir nemarnir fá bæði vinna í eldhúsinu og geta farið út að borða.“

Matreiðslumeistarinn Gísli Matthías Auðunsson, yfirkokkur á Slippnum í Vestmannaeyjum.

Mikil breyting

Veitingastaðurinn Bryggjan hefur breyst mikið á hálfu öðru ári, að sögn Sigurgeirs. „Ég tók við fyrir einu og hálfu ári, á sama tíma og Pétur Jónsson byrjaði sem yfirþjónn. Þá var þetta hefðbundinn fjölskyldustaður og síðan höfum við unnið baki brotnu við að breyta staðnum; markmiðið var að búa til flottan veitingastað, fine dining umhverfi en samt allt frjálslegt. Ég vann á fimm stjörnu veitingastaðnum á Bláa lóninu þar sem allt er mjög formfast og vil alls ekki hafa Bryggjuna þannig. Maturinn á að sjálfsögðu að vera mjög góður en stemningin létt og skemmtileg – dálítið rokk og ról!“

Pétur Jónsson hefur parað vín með matnum fyrir þá sem vilja. Yfirkokkurinn segir matargesti því eiga von á góðu á pop-up veitingahúsinu, bæði í mat og drykk.

Matseðlarnir sem verða í boði á Bryggjunni á fimmtudags- og föstudagskvöld.