Fara í efni
Fréttir

Slæmu, langvarandi óveðri spáð í vikunni

Samkvæmt dagatalinu er 3. júní í dag og verður ekki véfengt. Veðrið er hins vegar ekki eins og fólk á að venjast á þessum árstíma og verður ekki næstu daga því spáð er „óvenjulega slæmu og langvarandi norðan óveðri“ í vikunni, eins og það er orðað á vef Veðurstofu Íslands.

Gefin hefur verið út appelsínugul viðvörun til miðnættis annað kvöld fyrir nánast allt land, nema vestasta hlutann þar sem hún er gul. 

Yfirskrift spárinnar fyrir Norðurland eystra á vef Veðurstofunnar er HRÍÐARVEÐUR – þar segir:

  • Norðvestan 13 - 20 metrar á sekúndu.
  • Rigning eða slydda nærri sjávarmáli, annars snjókoma.
  • Talsverð úrkoma með köflum.
  • Lausamunir geta fokið.
  • Ferðalög geta verið varasöm, sérílagi á ökutækjum sem eru viðkvæm fyrir vindi.
  • Snjór getur sest á vegi, einkum fjallvegi, með erfiðum akstursskilyrðum eða jafnvel ófærð.
  • Huga þarf að því að koma búfénaði í skjól.
  • Mikill kuldi og vosbúð fyrir útivistarfólk.

 

Hvað merkir appelsínugul viðvörun?
Á vef Veðurstofu Íslands segir: Spáð er veðri sem getur valdið miklum samfélagslegum áhrifum. Veðrið getur valdið tjóni og/eða slysum og ógnar mögulega lífi ef aðgát er ekki höfð. Áhrif á þjónustu, innviði og samgöngur á landi og í lofti geta orðið miklar. Veður sem þessi verða nokkrum sinnum á ári og krefjast sérstakra viðbragða og árvekni við skipulagningu þjónustu og í daglegum athöfnum almennings.

Talið er að veðrið skáni eftir þetta, en frá miðnætti annað kvöld til miðnættis á fimmtudagskvöld – í tvo sólarhringja – er gul veðurviðvörum í gildi fyrir allt landið.

Um stöðuna á Norður- og Austurlandi þessa tvo sólarhringa skrifar veðurfræðingur:

  • Djúp lægð stödd fyrir austan land. Búast við norðan- og norðvestanátt, allhvass eða hvass vindur eða jafnvel stormur (meðalvindur 13-23 metrar á sekúndu) víða um land, þó er útlit fyrir heldur hægari vind með köflum á vestasta hluta landsins.
  • Með kaldri norðanáttinni fylgir talsverð úrkoma á Norður- og Austurlandi. Lengst af rigning eða slydda nærri sjávarmáli, en snjókoma inn til landsins.
  • Óvissa er varðandi hæð snjólínunnar, líkur eru á að hæðin verði breytileg innan viðvörunartímabilsins og ekki er útlilokað að um tíma snjói langleiðina niður að sjávarmáli.
  • Útlit er fyrir langvarandi óveður, en líkur eru á að veðrið skáni aðfaranótt föstudags.
  • Ef spár rætast, er um að ræða óveður sem er mjög óvenjulegt á þessum árstíma, bæði hvað varðar vindstyrk og einnig lágt hitastig samfara talsverðri úrkomu.
  • Huga þarf að lausamunum sem geta fokið. Ferðalög geta verið varasöm, sérílagi á ökutækjum sem eru viðkvæm fyrir vindi.
  • Snjóþekja getur sest á vegi á Norður- og Austurlandi, einkum fjallvegi.
  • Huga þarf að því að koma búfénaði í skjól.
  • Útivistarfólki er bent á að fara yfir áætlanir sínar með tilliti til kulda og vosbúðar sem óveðrinu fylgir.

Hvað merkir gul viðvörun?
Á vef Veðurstofu Íslands segir: Spáð er veðri sem getur haft talsverð samfélagsleg áhrif og valdið töfum, slysum eða tjóni ef aðgát er ekki höfð. Áhrif á innviði, þjónustu og samgöngur á landi geta orðið talsverð en eru líkleg til að verða staðbundin. Slík veður eru nokkuð algeng og krefjast árvekni við skipulagningu þjónustu, atburða og ferða.

Gul viðvörun getur einnig verið gefin út fyrir tiltekin spásvæði til vara við mjög áhrifamiklu veðri 3-5 daga fram í tímann. Gangi spár eftir eru miklar líkur á að viðvörunargildi hækki þegar nær dregur.