Fara í efni
Fréttir

„Skylda okkar að taka þátt og hafa áhrif“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem var heiðursgestur á Háskólahátíð, og Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri. Myndir af vef skólans.

Háskólahátíð — brautskráning kandídata frá Háskólanum á Akureyri fór fram í þremur athöfnum í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri (HA) á föstudag og laugardag. Samtals brautskráðust 537 kandídatar í grunn- og framhaldsnámi af tveimur fræðasviðum, fleiri en nokkru sinni að því er kemur fram á vef HA.

Föstudaginn 9. júní voru brautskráðir 166 kandídatar af framhaldsnámsstigi og laugardaginn 10. júní voru brautskráðir 371 kandídat í grunnnámi í tveimur athöfnum. Í þeirri fyrri voru brautskráðir kandídatar af Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviði og í þeirri seinni voru brautskráðir kandídatar af Hug- og félagsvísindasviði.

Í fyrsta skipti var brautskráð úr fagnámi til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða. Háskólinn á Akureyri er fyrsti háskólinn á Íslandi sem býður upp á námið en um er að ræða tveggja ára sveigjanlegt nám sem er skipulagt samhliða sjúkraliðastörfum þeirra sem stunda námið. Alls brautskráðust 20 kandídatar úr fagnáminu af kjörsviðinu öldrunar- og heimahjúkrun.

Kandídatar á Hug- og félagsvísindasviði.

Háskóli allra landsmanna

Í ræðu sinni fjallaði Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, um mikilvægi þátttöku í samfélagi og leiddi hugann að því hvernig einstaklingar geti raunverulega tekið þátt, bætt og breytt heiminum til hins betra. Hann undirstrikaði að í lýðræðislegu samfélagi eins og við búum í geta allir tekið þátt: „Hvert og eitt okkar getur haft áhrif og í stað þess að brjóta á sér fingurna í endalausu hamri upphrópana á lyklaborð og snertiskjái samtímans þá er það skylda okkar að taka þátt og hafa áhrif.“

Þá undirstrikaði rektor að Háskólinn á Akureyri væri í raun háskóli allra landsmanna: „Kæru kandídatar, ég horfi til ykkar sem leiðtoga nýrrar og betri framtíðar fyrir Ísland allt. Þið komið af landinu öllu og hafið unnið saman af stafrænum hætti og í lotum hér á Akureyri. Tilkoma Háskólans á Akureyri hefur því ekki einungis gert ykkur sem búið utan höfuðborgarsvæðisins kleift að stunda nám frá ykkar heimabyggð heldur hefur Háskólinn á Akureyri veitt höfuðborgarbúum betra aðgengi að námi. Háskólinn á Akureyri er því háskóli allra landsmanna, þjóðarinnar allrar, sannur þjóðarháskóli. Hér í ykkar námi hafið þið unnið saman sem ein heild. Haldið því áfram þegar út í atvinnulífið kemur og takið þátt í að sameina íslenskt samfélag en ekki sundra því.“

Kandídatar af Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviði.

Háskólahátíð er uppskeruhátíð háskólastarfsins og gerði rektor grein fyrir góðu skólaári: „Sú velgengni og sá velvilji sem skólinn nýtur byggir á þrotlausri vinnu og óbilandi trú starfsfólks Háskólans á Akureyri, með velvilja og jákvæðni stúdenta okkar sem leiðarljós. Á þeim níu árum sem ég hef nú starfað sem rektor hefur skólinn sjaldan mætt jafn góðum skilningi stjórnvalda og má þar meðal annars þakka nýju skipan ráðuneyta sem gefur háskólum meira vægi er kemur að málaflokki vísinda í íslensku samfélagi. Það er von okkar að stjórnvöld haldi áfram að sjá hversu mikilvægt það er fyrir samfélagið allt að byggja upp háskóla hér á landi og gleyma því ekki að í þeirri uppbyggingu er fjölbreytni skóla jafn mikilvæg, ef ekki mikilvægari, en eiginlegur fjöldi þeirra.“

Fögnum þegar við sjáum árangur

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var heiðursgestur Háskólahátíðar 2023 og ávarpaði kandídata á laugardeginum. Á vef skólans segir að forsetinn hafi flutt „einlægt ávarp til kandídata þar sem hann undirstrikaði að þegar allt er með felldu uppsker fólk eins og það sáir. Við þurfum áfram að hafa fyrir hlutunum, við verðum að ganga í verkin en svo megum við fagna þegar við sjáum árangur erfiðisins. Í stritinu sjálfu hjálpar okkur til muna að skipuleggja starfann, horfa fram í tímann og setja okkur markmið— og ekki síður að sýna dugnað, gefast ekki upp, hafa trú á okkur sjálfum, voru meðal heilræða forseta til kandídata, segir á vef skólans.

Hópur sem var brautskráður úr fagnámi til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða. Það var nú gert í fyrsta skipti.
_ _ _

Viðurkenningar fyrir góðan námsárangur í grunnnámi hlutu eftirfaldir:

Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið

  • Auðlindadeild: Halldór Yngvi Jónsson hlaut viðurkenningu deildarinnar fyrir bestan námsárangur.
  • Fagnám fyrir starfandi sjúkraliða: Kristín Helga Stefánsdóttir hlaut viðurkenningu frá Sjúkraliðafélagi Íslands fyrir ötult starf í þágu fagnámsins.
  • Hjúkrunarfræðideild: Árný Magnúsdóttir hlaut viðurkenningu frá Sjúkrahúsinu á Akureyri fyrir bestan námsárangur. Anna Lilja Valdimarsdóttir hlaut viðurkenningu frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands fyrir góðan námsárangur í samfélagshjúkrun.
  • Iðjuþjálfunarfræðideild: Dóra Björg Ingadóttir hlaut viðurkenningu frá Sjúkrahúsinu á Akureyri, Kristnesspítala, fyrir bestan námsárangur.
  • Viðskiptadeild: Friðrik Unnar Arnbjörnsson og Karítas Aradóttir hlutu viðurkenningu deildarinnar fyrir bestan námsárangur auk þess sem þau hlutu viðurkenningu frá KEA fyrir hæstu meðaleinkunn fræðasviðsins.
  • Tölvunarfræði: Þorsteinn I. Stefánsson Rafnar hlaut viðurkenningu fyrir besta námsárangur í tölvunarfræði á Akureyri.

Græn ritgerðarverðalaun frá Umhverfisráði HA:

  • Cayla Jean Asvestas
  • Vera Ósk Albertsdóttir

Hug- og félagsvísindasvið

  • Félagsvísindadeild: Amanda Guðrún Bjarnadóttir hlaut viðurkenningu deildarinnar fyrir bestan námsárangur auk þess sem hún hlaut viðurkenningu frá KEA fyrir hæstu meðaleinkunn fræðasviðsins.
  • Kennaradeild: Ellen María Guðmundsdóttir hlaut viðurkenningu deildarinnar fyrir bestan námsárangur.
  • Lagadeild: Sif Hauksdóttir hlaut viðurkenningu deildarinnar fyrir bestan námsárangur.
  • Sálfræðideild: Anna Kristrún Sigurpálsdóttir hlaut viðurkenningu deildarinnar fyrir bestan námsárangur.

Græn ritgerðarverðlaun frá Umhverfisráði HA:

  • Anna Kristrún Sigurpálsdóttir
  • Jordane Liebeaux
  • Eleni Kontostathi

Aðrar viðurkenningar innan Hug- og félagsvísindasviðs:

  • Jafnréttisviðurkenning Zontaklúbbs Akureyrar: Anete Ostrovska fyrir lokaverkefnið sitt: Foreign mothers of disabled children in Iceland Challenges of daily life.
  • Landssamband lögreglumanna: Kristrún Hilmarsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir hæstu meðaleinkunn í diplómanámi fyrir verðandi lögreglumenn frá Landssambandi lögreglumanna.
  • Ríkislögreglustjóri: Elva Rún Óskarsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir hæstu meðaleinkunn til BA prófs í lögreglu- og löggæslufræði frá ríkislögreglustjóra.

Viðurkenningar fyrir góðan námsárangur í framhaldsnámi hlutu eftirtaldir:

  • Hildur Ýr Hvanndal hlaut viðurkenningu fyrir bestan námsárangur til MS gráðu á Heilbrigðis-, viðskipta og raunvísindasviði.
  • Oddný Einarsdóttir hlaut viðurkenningu frá Iðjuþjálfafélagi Íslands fyrir bestan námsárangur í iðjuþjálfun til starfsréttinda.
  • Margrét Þóra Einarsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir bestan námsárangur í framhaldsnámi á Hug- og félagsvísindasviði.

Viðurkenningar Góðvina

Í 19. skipti veittu Góðvinir Háskólans á Akureyri, félag brautskráðra stúdenta við HA og annarra velunnara háskólans, viðurkenningar til kandídata sem hafa sýnt góðan námsárangur og óeigingjarnt starf í þágu háskólans á meðan á námstíma stóð. Fjórir hlutu heiðursverðlaun Góðvina að þessu sinni:

  • Framhaldsnám: Nökkvi Alexander Rounak Jónsson, ML í lögfræði.
  • Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið: Almar Knörr Hjaltason, BS í viðskiptafræði og BS í sjávarútvegsfræði og Eydís Sigfúsdóttir, BS í hjúkrunarfræði.
  • Hug- og félagsvísindasvið: Gestur Vagn Baldursson, BA í sálfræði.