Skriðan sem féll í morgun – MYNDIR
Nokkrar skemmdir urðu þegar aurskriða féll í nótt á Grenivíkurvegi, t.d. á vegriðum. Ökumaður bíls sem lenti í aurskriðunni tilkynnti um atvikið kl. 5.40. Þrennt var í bílnum en engan sakaði. Í dag kom fram að annar bíll ók inn í skriðuna hinum megin, án þess að nokkurn sakaði. Vegurinn er enn lokaður og óvíst hvenær hægt verður hægt að opna hann.
Skriðan féll á þjóðveginn rétt sunnan við Fagrabæ í Grýtubakkahreppi, um það bil miðja vegu milli kirkjustaðarins Laufáss og gatnamóta Grenivíkurvegar og Víkurskarðsvegar. Skriðan er um 200 metra breið á veginum og kemur úr 600 metra hæð, að því er segir á vef ofanflóðavaktar Veðurstofu Íslands.
- Til að komast úr nyrsta hluta Grýtubakkahrepps og innar í Eyjafjörð; frá Grenivík og bæjunum þar í grennd, svo og bæjum á svæðinu frá Laufási og suður að Fagrabæ, þarf að aka um Dalsmynni og áfram inn Fnjóskadal, þaðan yfir Víkurskarð eða um Vaðlaheiðargöng.
Hlýindi ollu leysingu
„Skriðan átti upptök sín ofarlega í Kræðufjalli og lenti í farvegi sem leiddi hana niður á veg. Engin úrkoma var í nótt og ekki hefur rignt á svæðinu síðan á aðfaranótt þriðjudags en þá komu um 2 mm í mæli á Akureyri. Hins vegar var áköf rigning á svæðinu fyrir síðustu helgi en rúmir 30 mm mældust þá á einum sólarhring,“ segir á vef ofanflóðavaktarinnar.
„Snjór hafði safnast í fjöll í október og hlýindi undanfarinna daga ollu því leysingu sem hefur komið þessari skriðu af stað. Leysingaskriður eru mjög staðbundin fyrirbæri og erfitt að sjá þær fyrir því margir þættir þurfa að koma saman til að þær aðstæður koma upp. Skriðan sem hér um ræðir er um 200 m breið á veginum og kemur úr um 600 m hæð. Tveir bílar óku inn í skriðuna. Þrír voru í öðrum bílnum og komust út en bíllinn fór áfram með skriðunni niður fyrir veg. Hinn bílinn stoppaði í jaðri hennar. Verið er að meta aðstæður og reyna að útiloka að frekari hætta sé til staðar á svæðinu. Ekki er spáð úrkomu á svæðinu næsta sólarhringinn en áfram verða fremur hlýjar suðlægar áttir.“
Frekari rannsóknir
Við greiningu á gervitunglamyndum sem gerð var í dag kom í ljós að hreyfing hefur verið á efni ofarlega í hlíðinni þaðan sem skriðan féll. Hreyfingin sem mælist þar er aðeins nokkrir millimetrar á tímabilinu 2015 til 2020 út frá myndum teknum að sumarlagi og ekki óalgengt að sjá slíka hreyfingu í fjallshlíðum, segir á vef Veðurstofu Íslands. Vonast er til að greina megi orsakir hreyfingarinnar með frekari rannsókn á svæðinu. Á kortinu hér fyrir neðan má sjá grænbláan blett ofan við skriðuútlínurnar sem sýnir að efni hefur færst til.
Myndirnar eru frá lögreglunni, Vegagerðinni og Veðurstofu Íslands.
Fréttir fyrr í dag:
Leiðin enn lokuð – meta líkur á frekari skriðum
Óku inn í aurskriðu og út af veginum – engan sakaði