Fara í efni
Fréttir

Skotið á Akureyringa í kvikmyndinni Villibráð

Leikarar í kvikmyndinni Villibráð.

Íslenska kvikmyndin Villibráð, þykir vera mjög fyndin og hefur fengið mikið lof en þar er meðal annars skotið hart á Akureyringa.

Myndin gerist í matarboði í Vesturbænum þar sem sjö vinir ákveða að fara í áhugaverðan samkvæmisleik sem felst í því að símar viðstaddra eru allir lagðir á matarborðið og öll símtöl og skilaboð sem berast í símana verður að deila með viðstöddum.

Eitt símtalið sem berst er til Péturs sem er þjálfari hjá KR, en Gísli Örn Garðarson leikur hann. Í ljós kemur að Pétur er að hugsa um að sækja um þjálfarastöðu hjá KA. Ekki eru allir gestir matarboðsins hrifnir af þeirri hugmynd, sérstaklega ekki persónan Steini sem Björn Hlynur Haraldsson leikur. Skýtur Steini hart á Akureyringa og segir það sé bara fyrir metnaðarlausa þjálfara að þjálfa hjá KA. Gefur hann í skyn að fótboltakrakkar á Akureyri séu almennt of feitir og lítið gaman að þjálfa þá. Þeir geti ekki gefið fimmu eftir æfingar heldur þurfi á insúlínsprautu að halda. Þá borði þeir aðallega pitsu með majónesi og djúpsteikt morgunkorn.

Best er að gefa ekki meira uppi um söguþráðinn, fyrir þá sem eiga eftir að sjá þessa vinsælu og spaugilegu kvikmynd sem fengið hefur mikla aðsókn í kvikmyndahúsum. Myndin er í sýningu seinnipartinn hjá Sambíóunum Akureyri.