Fara í efni
Fréttir

Skortur á eldsneyti er þjóðaröryggismál

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður segir alvarlegt ástand munu skapast varðandi flug um Akureyrarflugvöll fljótlega eftir að verkfall olíuflutningabílstjóra innan raða verkalýðsfélagsins Eflingar í Reykjavík hefst. Ótímabundin vinnustöðvun þeirra hefst í hádeginu á morgun.

Þingmaðurinn segir eldsneyti sem geymt er á Akureyrarflugvelli ekki duga nema í fáeina daga, en setur málið raunar í mun stærra samhengi en varðandi hefðbundna flugumferð, í samtali við Akureyri.net; hann segir það snúast um þjóðararöryggi.

Mikil afturför

„Á Akureyrarflugvelli eru tankar sem rúma einungis 120.000 lítra. Fyrir rúmum 30 árum var staðan í tengslum við flugeldsneyti [Jet 1A] á Akureyri mun betri,“ segir Njáll Trausti sem þekkir vel til enda starfaði hann sem flugumferðarstjóri á Akureyri í fjöldamörg ár. „Á þeim tíma var geymt umtalsvert meira magn á tönkum í olíubirgðastöðinni í Krossanesi og það var mikil afturför þegar því var hætt,“ segir hann. 

Á árum áður var flugvélaeldsneyti flutt til Akureyrar með skipum en nú er hins vegar öllu eldsneyti á flugvélar sem flutt er til landsins skipað upp í Helguvík, steinsnar frá Keflavíkurflugvelli, og geymt í olíubirgðastöðinni þar. Því er svo ekið norður í land.

Rétt er að taka fram að bifreiðaeldsneyti er flutt með skipum og geymt í Krossanesi svo enginn hörgull ætti að verða á því hér nyrðra þrátt fyrir verkfall.

Alþjóðlegur varaflugvöllur

„Flugvellirnir á Akureyri og Egilsstöðum eru alþjóðlegir varaflugvellir, m.a. fyrir flugheri NATÓ ríkjanna, og þar þyrftu alltaf að vera til nægar birgðir af eldsneyti. Mér finnst því mikilvægt að ræða ástandið sem þjóðaröryggismál,“ segir Njáll Trausti. „Með þjóðarhagsmuni í huga þurfa auðvitað birgðir af flugvélaeldsneyti að vera geymdar á fleiri stöðum en í Helguvík.“ 

Hann nefnir í þessu samhengi skýrslu um neyðarbirgðir sem kom út í haust „og ætti að opna augu fólks. Þar var meðal annars fjallað um lyf og mat, og sérstaklega var fjallað um flugvélaeldsneyti.“

Eldsneyti á flugvélar geymist verr en annað eldsneyti. „Það er meira mál að halda því í lagi og mögulega var það ástæðan fyrir því að ákveðið var á sínum tíma að landa öllu í Helguvík og keyra það út á land. En það er bara mál sem þarf að taka upp og vinna í. Ef flugvélaeldsneyti er ekki til á varavöllunum er það klárlega veikleiki í tengslum við öryggismál þjóðarinnar.“

Ekki sama verð

Enn ein hlið á peningnum er svo verð á flugvélaeldsneyti; það var mun dýrara úti á landi en á borgarhorninu. Njáll Trausti er afar ósáttur við  þá stöðu mála og sannarlega ekki einn um það. „Það er mikil óánægja með þetta. Sennilega bætast um það bil 5.000 krónur ofan á miðaverð fyrir hvern fluglegg þegar flugfélag kaupir eldsneyti á Akureyri og Egilsstöðum. Það er umtalsverður aukakostnaður fyrir íbúa Norður- og Austurlands.“ Hann segir nauðsynlegt að jafna verð með einhverjum hætti, til dæmis með því að koma á jöfnunarsjóði eins og er fyrir hendi varðandi eldsneyti á ökutæki.