Skora á stjórnvöld vegna stuðningslána
„Heimilin í landinu hafa setið eftir í aðgerðum stjórnvalda sem eiga að tryggja viðspyrnu í kjölfar Covid faraldursins. Í aðgerðum stjórnvalda hafa heimilin í landinu greitt að stórum hluta fyrir sín úrræði sjálf með því að ganga á séreignarsparnað sinn.“ Þannig hefst ályktun trúnaðarráðs Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni, sem barst Akureyri.net í dag.
Áfram segir: „VR og LÍV hafa lagt fram hugmynd að sértækum stuðningi sem tryggir afkomuöryggi til handa þeim heimilum sem hafa orðið fyrir atvinnumissi og tekjufalli vegna Covid.
Hugmyndin felur í sér aðkomu bæði ríkisins og bankanna. Lagt er til að veitt verði stuðningslán til heimila með 100% ríkisábyrgð og afslætti af heildartekjuskatti til að mæta afborgunum af þeim.
Efnahagslegar afleiðingar faraldursins leggjast með misþungum hætti á heimilin í landinu og það er mikilvægt að samfélagið taki höndum saman til að aðstoða þau heimili sem þurfa á því að halda.
Trúnaðarráð Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni skorar á stjórnvöld að hrinda í framkvæmd hugmyndum um stuðningslán til heimilanna.“