Fara í efni
Fréttir

Skondin myndskeið um lífsgæði á Akureyri

Skondin myndskeið á Facebooksíðu Akureyrarbæjar vöktu athygli um helgina en þar leikur Karl Örvarsson tónlistarmaður og grínisti týpu sem kynnir sér ýmis mál á höfuðborgarsvæðinu fyrir hönd Akureyringa.

Efnið er hluti af nýrri markaðsherferð Akureyrarbæjar sem atvinnu-, menningar- og markaðsteymi bæjarins hefur unnið að í samstarfi við auglýsingastofuna ENNEMM.

Þórgnýr Dýrfjörð forstöðumaður segir að í þessu átaki sé sjónum beint að íbúamarkaði. „Við vinnum flesta daga ársins við að segja frá og markaðssetja Akureyri með ýmsu móti en hér erum við að vekja athygli á Akureyri sem góðum búsetukosti og fylgja eftir jákvæðri íbúaþróun síðustu missera,“ segir Þórgnýr við Akureyri.net. „Þótt við vitum að höfuðborgarsvæðið hafi marga ótvíræða styrkleika og bjóði upp á möguleika sem við höfum ekki, þá komum við fram af sjálfstrausti og bendum á ákveðna kosti sem tengjast eftirsóknarverðum lífsgæðum og við getum sagt að Akureyri hafi almennt umfram höfuðborgarsvæðið“ segir Þórgnýr og bætir við: „Eitt lykilatriðið er að þú eignast meiri tíma á Akureyri og hefur meira en nóg við hann að gera!“

Herferðin mun í þessari atrennu standa fram í nóvember og samanstendur af lifandi efni á samfélagsmiðlum, lesnum útvarpsauglýsingum og síðast en ekki síst þá verða stutt textaskilaboð frá Akureyri birt á umhverfisauglýsingum á höfuðborgarsvæðinu sem og á vefmiðlum.

Í öllum auglýsingum er fólki beint á heimasíðuna www.bestistadurinn.is þar sem helstu kostir eru tíundaðir í stuttu máli. Þaðan er svo vísað á frekari upplýsingar á heimasíðum bæjarins, www.akureyri.is og www.halloakureyri.is og fleiri stöðum.

„Það væri gaman ef okkur tekst með þessu átaki að ýta við þeim sem hafa látið sig dreyma um að flytja til Akureyrar og sá fræjum í huga hinna.“

  • Smellið hér og hér til að sjá myndskeiðin.