Fara í efni
Fréttir

Skoða aukið samstarf um græna orku

Orkumál og þá sér í lagi græn orka eru til umræðu á ráðstefnunni Artic Energy Forum sem stendur nú yfir á Akureyri. Mynd: Aef.is

Ráðstefnan Arctic Energy Forum stendur nú yfir í Hofi á Akureyri. Markmið ráðstefnunnar er að skoða möguleika á aukinni nýtingu á grænum orkugjöfum og auka gæði íbúa á norðurslóðum í sambandi við orkumál.

Að sögn Halldórs Jóhannssonar, framkvæmdastjóra Arctic Portal eru um 120 manns á Arctic Energy Forum ráðstefnunni, frá Íslandi, Bandaríkjunum, Kanada og Skandinavíu. Í hópnum er margt fólk í yfirmannsstöðum, m.a. þingmenn frá Alaska, orkumálaráðherra Grænlands, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi og yfirmenn orkufyrirtækja bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum. „Markmiðið með þessari ráðstefnu er fyrst og fremst að auka samstarf, en Ísland og Bandaríkin gerðu samning í vor um aukið samstarf í sambandi við græna orkugjafa. Tilgangurinn er því að auka þetta samtal og verða til þess að fyrirtæki og stofnanir hér og þar nái að skiptast á þekkingu. Mögulega leiðir þetta af sér einhver fjárfestingaverkefni, það er ekki útilokað en tilgangurinn er fyrst og fremst að draga fólk saman og fá það til að skiptast á þekkingu og kynnast,“ segir Halldór. 

Í síðustu viku var ráðstefna í Hofi um gervihnött sem skotið verður út í geim næsta haust. Í þessarri viku er þar ráðstefna um græna orkugjafa og mögulegt samstarf milli m.a. Bandaríkjanna og Íslands skoðað. 

Betri lífsgæði með auknu samstarfi

Aðgengi að grænni orku á Íslandi er mjög gott en víða annars staðar er það ekki svo. Nefnir Halldór Alaska sem dæmi en þar hefur gas og olía verið aðalorkugjafar en gasbirgðir séu að minnka hratt og Alaskabúar þurfi að fara að hugsa í aðrar áttir. Segir Halldór að orka og orkumál séu einn af þessum lykilþáttum sem mannkynið stendur frammi fyrir að leysa með betri hætti og á ráðstefnunni gefist möguleikar til að ræða þessi mál bæði út frá pólitísku og tæknilegu sjónarmiði. „Markmiðið er að reyna að örva samstarf, deila reynslu og þekkingu sem að getur leitt af sér betri lífsgæði. Ég held að það sé alveg ljóst að það komi eitthvað út úr þessu. Við höfum verið að vinna mikið í gagnamálum og það liggur fyrir að við munum vinna með aðilum frá Bandaríkjunum og Kanada að slíku verkefni þannig það er ávinningur fyrir okkur. Það er samtal á milli íslenskra aðila og bandarískra aðila varðandi þekkingarmiðlun og svona er ekkert nema jákvætt. Maður veit aldrei hvað kemur út úr því en þetta eru mjög jákvæð skref í samstarfsátt.“

Markmiðið með þessari ráðstefnu er fyrst og fremst að auka samstarf, en Ísland og Bandaríkin gerðu samning í vor um aukið samstarf í sambandi við græna orkugjafa. Tilgangurinn er því að auka þetta samtal og verða til þess að fyrirtæki og stofnanir hér og þar nái að skiptast á þekkingu.


Sýn listamanns á SMILE geimfarinu Mynd: Articportal.org

Gervihnattaskot skipulagt í Hofi

Það er annars stutt stórra högga á milli hjá Arctic Portal. Í síðustu viku var önnur áhugaverð ráðstefna á Akureyri sem Arctic Portal hélt utan um. Þar hittust 70 sérfræðingar í Hofi í tengslum við gervihnattaverkefnið SMILE. Til stendur að skjóta út gervihnetti frá Frönsku Gíneu  næsta haust en geimferðin miðar að því að mæla viðbrögð jarðar á heimsvísu við sólvindi og jarðsegulbreytingum. Á ráðstefnunni á Akureyri var verið að skipuleggja verkefnið en að því koma Geimferðastofnun Evrópu (ESA), kínverska geimferðastofnunin, Geimferðastofnun Frakklands (CNES), NASA í Bandaríkjunum og fleiri. Að sögn Halldórs er Rannsóknarstöðin á Kárhóli í Reykjadal einnig hluti af þessu verkefni. Þá er líka að hefjast ráðstefna í Háskólanum á Akureyri í dag sem Arctic Portal kemur einnig að,  9th China-Nordic Arctic Cooperation Symposium en þema ráðstefnunnar er Norðurskautið, sem svæði tækifæra og áskorana og mikilvægi norræns samstarfs.