Fara í efni
Fréttir

Skjótt skipast veður í lofti – gleðilega páska!

Ljósmyndir: Þorgeir Baldursson

Bjart var á Akureyri í morgun, sól skein í heiði og margir drifu sig með skíðin upp í Hlíðarfjall. Síðan sannaðist hið fornkveðna að skjótt skipast veður í lofti; aðeins leið ein klukkustund frá því Þorgeir Baldursson tók efri myndina við heimili sitt í Lónsbakkahverfi, rétt norðan landamæra Akureyrar og Hörgársveitar, þar til hann smellti af öðru sinni og útkoman var neðri myndin.

Vert er að nefna að tilkynnt var um hádegisbil að búið er að loka skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli.

Í dag er spáð leiðindaveðri norðan- og austanlands, akstursskilyrði eru sums staðar orðin erfið, til dæmis eru bílar fastir í blindbyl út með Eyjafirði. Spáð er norðaustan 13 til 18 metra vindhraða á sekúndu, snjókomu í dag en að það dragi úr ofankomunni í kvöld. Gul veðurviðvörum er í gildi til miðnættis.

Óvissustig  er á Öxnadalsheiði, færð hefur þyngst og vegurinn gæti lokast með stuttum fyrirvara.
 
Að svo mæltu óskar Akureyri.net lesendum nær og fjær gleðilegra páska!