„Skírnarminning“ transmanns í fyrsta sinn
![](/static/news/lg/1647444037_ny-mynd.jpg)
Söguleg athöfn, skírnarminning, var haldin fyrir Snævar Óðin Pálsson í Glerárkirkju laugardaginn 12. mars. Það er í fyrsta skipti sem slík athöfn er haldin hérlendis fyrir transmann og Snævar segir stundina hafa skipt sig mjög miklu máli.
Snævar Óðinn, sem er 31 árs Akureyringur, hóf kynleiðréttingarferli árið 2014 og fékk nýtt nafn árið eftir.
„Þá sótti ég um nafnabreytingu til Þjóðskrár og fékk nýtt nafn. Eftir að ég byrjaði í kór Glerárkirkju síðasta haust fór ég svo að velta því fyrir mér hvort hægt væri að láta skíra sig upp á nýtt, séra Sindri svaraði því neitandi en benti mér á að hægt væri að hafa svokallaða skírnarminningu,“ segir Snævar við Akureyri.net.
Hugsað fyrir transfólk
„Athöfnin skírnarminning er til og hefur verið notuð í ákveðnum guðsþjónustum í nokkur ár; þá er fólki boðið að minnast skírnarinnar og endurnýja fyrir sjálfu sér merkingu hennar,“ útskýrir séra Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur í Glerárkirkju í samtali við Akureyri.net. „En einnig er mögulegt að hafa skírnarminningu og gera nafnablessun fyrir einstaklinga sem af einhverjum ástæðum hafa tekið upp nýtt nafn,“ segir hann.
„Maður sem kynntist þessu fyrirkomulagi erlendis þýddi formið yfir á íslensku í þeim tilgangi að nota það fyrir transfólk sem búið er að taka sér nýtt nafn og vill vera með athöfn sem kallast á við skírnina. Við erum að staðfesta nýja nafnið fyrir guði og mönnum,“ segir Sindri. „Sá maður er starfandi í kirkju á höfuðborgarsvæðinu, er samkynhneigður og var í sambandi við Samtökin 78 sem komu með umsögn, þannig að þetta var unnið í samráði við þau.“
Eitt ár strákur með stelpunafn
Snævar Óðinn segir umrædda athöfn skipta hann miklu máli. „Já, hún gerir það. Ég er mjög þakklátur fyrir það að athöfnin er möguleg; þótt langt sé síðan ég fékk þetta nafn er gott og mikilvægt að staðfesta það í trúnni,“ segir hann.
„Ég byrjaði leiðréttingarferlið 2014 en áður en ég fékk nýtt nafn þurfti ég að lifa í eitt ár sem kynið sem ég vildi vera áður ég gat byrjað í hormónameðferð og farið í aðgerðir; ég lifði því í eitt ár sem strákur en með stelpunafn í kerfinu. Það var erfitt, en mér skilst að þetta sé orðið öðruvísi í dag. Að fólk þurfi ekki að bíða svona lengi.“
Athöfnin í Glerárkirkju var falleg og dýrmæt, segir Snævar. „Það var mamma sem sagði nafnið mitt; ég vildi frekar að hún gerði það en að ég myndi segja það sjálfur. Tveir skírnarminningarvottar voru við athöfnina, Ásthildur besta vinkona mín og Margrét Birta, litla frænka mín og svo fluttum við Dagbjört systir mín þrjú lög.
Pabbi hélt smá ræðu, bæði í athöfninni og veislunni; sagði sögur af mér, sem var mjög gaman og æskuvinkona mín hélt líka skemmtilega ræðu. Þetta var mjög notalegt, bæði athöfnin og veislan í safnaðarheimili kirkjunnar, þar sem voru nánasta fjölskylda og vinir.“
Mjög ánægjulegt
„Snævar Óðinn var á sínum tíma skírður hér í kirkjunni og hefur verið að taka þátt í kirkjustarfinu hjá okkur. Auðvitað er mismunandi hvort fólk vill hafa trúarlegar athafnir í sínu lífi eða ekki, en mér finnst mikilvægt að þessi möguleiki sé fyrir hendi ef fólk í kynleiðréttingarferli, eða fólk sem hefur tekið upp nýtt nafn af einhverri annarri ástæðu, vill hafa skírnarminningu,“ segir séra Sindri Geir.
Aðrir biblíutextar eru lesnir við skírnarminninguna en hefðbundna skírn, „textar í biblíunni um fólk sem fær nýjan tilgang og nýtt hlutverk í lífinu,“ segir séra Sindri. „Þegar fólk er á þeirri vegferð er við hæfi að vera með athöfn, fyrirbænastund fyrir þessum einstaklingi lífi hans og framtíð. Fólk er farið að lifa því lífi sem það sjálft vill; í réttu kyni og með því nafni sem það hefur valið sér á þessum tímamótum,“ segir Sindri Geir og bætir við: „Mér finnst mjög ánægjulegt að hafa fengið að taka þátt í þessari athöfn,“ segir séra Sindri.
Séra Sindri Geir Óskarsson, Snævar Óðinn Pálsson og Margrét Hólmfríður Pálmadóttir, móðir Snævars.
Snævar Óðinn ásamt foreldrum sínum, systur og börnum hennar. Frá vinstri: Margrét Hólmfríður Pálmadóttir, Hólmfríður Lilja Jóhannsdóttir, Dagbjört Elín Pálsdóttir, Margrét Birta Jóhannsdóttir, Snævar Óðinn, Páll Jóhannesson og Elín Alma Jóhannsdóttir.
Systkinin, Snævar Óðinn og Elín Dagbjört tóku lagið í athöfninni.
Frá vinstri: Egill Bjarni Friðjónsson, Hugrún Erla Karlsdóttir, Olga Katrín Olgeirsdóttir, María Sigurlaug Jónsdóttir, Berglind Júlíusdóttir og Dagný Hulda Valbergsdóttir með Sverri Ásberg Friðgeirsson.
Frá vinstri: Snævar Óðinn Pálsson, Helga Guðjónsdóttir, Ásthildur Rósa Jóhannsdóttir, Margrét Hrönn Lindudóttir, Kolbrún Dögg Tryggvadóttir, Anna Sævarsdóttir og Harpa Guðbrandsdóttir.