Fara í efni
Fréttir

Skipa starfshóp um símareglur grunnskóla

Mynd: Unsplash/Charles Deluvio

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti í gær með 11 samhljóða atkvæðum að skipaður verði starfshópur þegar niðurstöður úr könnunum fræðslu- og lýðheilsusviðs liggja fyrir um símanotkun/reglur í grunnskólum bæjarins. Hópurinn verður samsettur af einum úr meirihluta fræðslu- og lýðheilsuráðs, einum úr minnihluta, einum náms- og starfsráðgjafa, einum skólastjórnanda, fulltrúa foreldra grunnskólabarna, fulltrúa ungmennaráðs, ásamt starfsmanni fræðslu- og lýðheilsusviðs og honum gert að rýna niðurstöðurnar og koma með tillögur um framhaldið.

Tillaga fulltrúa B-lista felld

Áður höfðu bæjarfulltrúar B-lista, Gunnar Már Gunnarsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir, lagt fram tillögu um að fræðslu- og lýðheilsuráði yrði falið, í samstarfi við ungmennaráð og fulltrúa skólasamfélagsins, skólastjórnendur, kennara og nemendaráð grunnskóla, að setja reglur um notkun síma í grunnskólum bæjarins. Reglurnar myndu taka gildi í síðasta lagi um áramótin næstu og gilda þar til mennta- og barnamálaráðherra hefur lokið vinnu við mótun reglna um notkun síma í grunnskólum landsins. 

  • Smellið hér til að sjá frétt Akureyri.net um tillögu Gunnars og Sunnu

Þrír bæjarfulltrúar greiddu atkvæði með tillögu Gunnars Más og Sunnu Hlínar á fundi bæjarstjórnar í gær, þau sjálf og Brynjólfur Ingvarsson. Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir sat hjá, en aðrir bæjarfulltrúar greiddu atkvæði gegn tillögunni og var hún því felld, en tillaga meirihlutans að því búnu samþykkt samhljóða.

Bæjarfulltrúar L-lista, D-lista, S-lista og V-lista óskuðu jafnramt bókað að nú þegar væru í gildi símareglur í öllum grunnskólum bæjarins, en í skoðun væri hvort æskilegt væri að innleiða samhæfðar reglur allra skóla sveitarfélagsins. Töldu þau farsælast að bíða eftir niðurstöðum úr þeirri könnun og unnið að tillögum með öllum hlutaðeigandi í framhaldi af því.