Fara í efni
Fréttir

Skilur SBA en bílnum var ekki lagt ólöglega

Eigandi bíls sem lagt var á stæði milli Íþróttahallarinnar og Brekkuskóla síðdegis í gær undrast að bílstjóri SBA – Norðurleiðar telji að bílnum hafi verið lagt ólöglega. Lögreglan staðfesti að svo hafi ekki verið.

Viðkomandi hrökk í kút þegar hann sá mynd af bíl sínum með frétt á Akureyri.net í gær. Maðurinn segir að skv. merkingu sé óheimilt að leggja á umræddum stað frá klukkan átta að morgni til kl. þrjú síðdegis og bíll hans hafi sannarlega verið þar eftir það. Ekkert gefi til kynna að bannað sé að leggja á svæðinu fyrir eða eftir þann tíma. Hann tók meðfylgjandi mynd því til sönnunar.

„Ég hef aldrei lagt bílnum mínum þarna á umræddum tíma og hef reyndar ekki séð nokkurn annan gest gera það heldur. Ég er að sjálfsögðu tillitsamur þegn og löghlýðinn og mun því ekki leggja þarna framar.“ 

Hann segir vel skiljanlegt að SBA-menn séu óhressir þegar bílum er lagt ólöglega og þeim sé þannig gert erfitt að sinna vinnu sinni. Hann vilji alls ekki lenda í deilum við þá en þykir birting myndarinnar óheppileg. „Ef SBA-menn vilja láta lengja tímann sem bannað er að leggja á þessum stað verða þeir að fara fram á að merkingum verði breytt.“

Maðurinn segist hafa lagt leið sína á lögreglustöðina í gær og „lögreglufulltrúinn sem ég ræddi við staðfesti að bílnum mínum hafi ekki verið lagt ólöglega þarna.“