Fara í efni
Fréttir

Skemmtilegt að geta haft góð áhrif á framtíðina

Áslaug hefur búið í Bandaríkjunum síðastliðin 30 ár en flutti gagngert til Akureyrar til að taka við rektorstöðunni við Háskólann á Akureyri. Mynd: SNÆ

Nýr rektor, Áslaug Ásgeirsdóttir, hóf störf við Háskólann á Akureyri í sumar. Áslaug hefur víðtæka reynslu úr bandarísku háskólaumhverfi en ákvað að flytja til Akureyrar eftir 30 ára búsetu ytra til að taka við starfinu, sem hún segir vera bæði fjölbreytt og spennandi.

„Það sem maður saknar mest er fólkið sem maður skilur eftir. September og október í Maine er líka yndislegur tími. Haustið kemur hægt, það er mikil sól og gott veður. En þegar veturinn kemur þá er hann harðari en hér, svo þetta jafnar sig út,“ segir Áslaug spurð að því hvað hún sakni mest frá lífinu í Bandaríkjunum, þar sem hún hefur verið búsett undanfarin 30 ár. Frá árinu 2001 hefur hún starfað við Bates Collage, í Maine. Þar vann hún bæði við kennslu og rannsóknir og gegndi ýmsum stjórnunarstörfum, s.s. starfi aðstoðarrektors og starfi deildarforseta. Þegar rektorsstaðan við Háskólann á Akureyri var auglýst fannst henni starfið vera það spennandi að hún var tilbúin til að selja húsið sitt ytra og flytja til baka til Íslands og taka við stöðunni af Eyjólfi Guðmundssyni sem verið hafði rektor skólans í 10 ár eða frá 2014.

Áslaug tók við rektorstarfinu af Eyjólfi Guðmundssyni. Hún segir að þau Eyjólfur séu um margt lík, en líka mjög ólík enda kemur hún úr allt öðrum geira en hann. Mynd: Háskólinn á Akureyri

Tók snjóþrúgur og gönguskíði með frá Bandaríkjunum

Áslaug hefur nú verið um þrjá mánuði í starfi. Byrjunin á skólaárinu var nokkuð brött þar sem hluti skólahúsnæðisins hefur verið ónothæfur vegna myglu á Borgum.

Þá hefur Áslaug einnig verið að vinna með rektor Háskólans á Bifröst að hefja á ný sameiningarviðræður háskólanna og eins liggur fyrir krafa frá íslenskum háskólayfirvöldum um fjölgun á hjúkrunarnemum, en til þess að það geti orðið þarf skólinn nýtt hermisetur. „Ég veit að svona störf geta verið mjög fjölbreytt og spennandi, og það voru einmitt allar þessar áskoranir sem drógu mig hingað. Í þessu starfi getur maður haft góð áhrif á framtíðina sem er alltaf skemmtilegt,“ segir Áslaug, sem hefur sannarlega haft í mörg horn að líta þessa fyrstu mánuði í starfi.

Frá Borgum. Plöstuð húsgögn eru út um alla ganga vegna mygluframkvæmda í húsinu og færa hefur þurft starfsfólk til.

Meðfram nýju starfi hefur Áslaug reynt að kynnast Akureyri og nágrenni, en fyrri tengingar við bæinn eru litlar þar sem hún er fædd og uppalin í Garðabæ. Áslaug er fædd árið 1966, hún gekk í Menntaskólann í Reykjavík og fór svo í blaðamannanám til Bandaríkjanna. Að námi loknu fór hún að vinna á Morgunblaðinu en fór svo aftur utan þar sem hún kláraði doktorsnám í stjórnmálafræði. Eitt leiddi af öðru og árin í Bandaríkjunum urðu 30. Eftir að hafa komið heim í eitt ár á Fulbright styrk til Háskóla Íslands fór Áslaug að velta fyrir sér möguleikanum á að flytja aftur til föðurlandsins, ef rétta starfið byðist. „Mér líst bara mjög vel á starfið og Akureyri í heild sinni. Ég er að koma úr lítilli borg í Bandaríkjunum svo ég veit hvaða lífsgæði eru fólgin í því að búa í minna samfélagi. Ég reikna með því að ég vinni mikið þetta fyrsta ár, því það tekur alltaf tíma að koma sér inn í svona starf, en ég vonast til þess að ég eigi eftir að kynnast fólki í bænum og eignast hér vini,“ segir Áslaug og bætir við að hún hafi komið með snjóþrúgur, gönguskíði og þykkar úlpur frá Bandaríkjunum svo hún er vel tilbúin í norðlenskan vetur. „Ég hef áhuga á ýmsu. Mér finnst t.d gaman að fara á listviðburði, hvort sem það er tónlist eða leikhús. Ég hef alltaf haft gaman af því að elda, fara á fjöll og í göngutúra. Ég átti lengi hund í Maine sem gaf mér mikið, kannski fæ ég mér hund hér líka. Ég er í góðu sambandi við æskuvini mína og á góða fjölskyldu fyrir sunnan og þetta fólk hefur verið duglegt að heimsækja mig hingað norður.“

Mikill munur á íslensku og bandarísku háskólaumverfi

Þó Áslaug hafi ekki verið lengi á Akureyri, þá finnur hún að viðbrigðin eru töluverð, sérstaklega hvað háskólaumhverfið varðar. „Almennt hefur fólk tekið mér vel og þó ég viti að fólk á eftir að verða ósammála einhverju sem ég geri þá finnst mér þetta vera góð byrjun. Ég er náttúrulega að koma úr bandarísku háskólaumhverfi sem er allt öðruvísi en það íslenska eða evrópska. Háskólinn sem ég vann í áður var 2000 manna skóli og þar voru allir nemendur á heimavist í 4 ár. Þannig að það voru allir alltaf á staðnum. Við vorum ekki með neitt fjarnám.“ Þá nefnir Áslaug að íslenskir háskólanemar séu almennt eldri en þeir bandarísku og vinni líka meira með námi. „Þetta er að vissu leyti áskorun fyrir háskóla hér á Íslandi, ekki bara okkur í HA. Uppbygging námsins hérna bíður líka upp á vinnu með námi en það er alltaf spurning hvað er orsök og hvað afleiðing.“

Ég er að koma úr lítilli borg í Bandaríkjunum svo ég veit hvaða lífsgæði eru fólgin í því að búa í minna samfélagi. Ég reikna með því að ég vinni mikið þetta fyrsta ár, því það tekur alltaf tíma að koma sér inn í svona starf, en ég vonast til þess að ég eigi eftir að kynnast fólki í bænum og eignast hér vini

Betri vinnustaðamennig á Íslandi

Fleira er öðruvísi í skólalífinu á Akureyri en í Bandaríkjunum sem Áslaug er að venjast, t.d starfsumhverfi stjórnenda og kennara. „Ég kem úr bandarísku umhverfi þar sem fólk kann sér ekki mörk, þó svo ég hafi alltaf reynt að setja mér einhver mörk. Vinnudagurinn úti var oft mjög langur, sérstaklega þegar ég var að kenna. Öll nefndarstörf koma nefnilega ofan á kennsluna, á meðan hérlendis er það meira þannig að ef þú gerir meira af einu þá færðu minna af öðru. Úti bætist bara ofan á. Þá er kennsla í bandarískum háskólum mjög kröfuhörð. Nemendur láta þig alveg vita ef þeim leiðist og þeir halda þér við efnið sem er skemmtilegt. Þá tíðkast ekki kaffitímar í bandarísku vinnuumhverfi og allir borða hádegismat við skrifborðið sitt. Vinnustaðamenningin hér er því miklu betri,“ segir Áslaug og heldur áfram að týna til hluti sem eru öðruvísi hér en úti. „Já, svo var ég að komast að einu sem mér finnst áhugavert, en ég er eina manneskjan í háskólanum sem má samþykkja risnu. Ef einhver vill kaupa áfengi, sem sagt vill t.d. bjóða upp á kampavín við eitthvað tilefni, þá er ég eina manneskjan sem getur samþykkt það. Úti þurfti ekki sérstakt leyfi fyrir slíku, starfsfólki var bara treyst fyrir þessu,“ segir Áslaug.

Stundvís rektor

Eins og áður segir þá er Áslaug að taka við rektorsstarfinu af Eyjólfi Guðmundssyni sem var rektor við skólann í 10 ár. Aðspurð að því hvort það séu einhver líkindi í stjórnunarstíl þeirra tveggja segir hún aðra verða að dæma um það. „Ég held við séum lík um ýmislegt, en líka mjög ólík. Ég kem úr allt öðrum geira en hann og hugsa hlutina allt öðruvísi, sem er ágætt. Og ég held hann verði ekkert fúll ef ég segi að ég er að uppgötva það að starfsfólkið hérna er að venjast því að vera með stundvísan rektor,“ segir Áslaug og hlær.

  • Akureyri.net mun ræða betur við Áslaugu á næstu dögum þar sem hún segir frá sinni sýn á háskólalífið og þeim áskorunum og tækifærum sem Háskólinn á Akureyri stendur frammi fyrir.

„Ég hef áhuga á ýmsu. Mér finnst t.d gaman að fara á listviðburði, hvort sem það er tónlist eða leikhús. Ég hef alltaf haft gaman að því að elda, fara á fjöll og í göngutúra,“ segir Áslaug sem er að kynnast Akureyri meðfram nýju starfi.