Skemmtiferðaskip betri en góð loðnuvertíð?
Á kynningarfundi sem Ferðamálastofa hélt fyrir skemmstu um helstu málefni sem tengjast komum skemmtiferðaskipa til landsins kom meðal annars fram í erindum að samtals hafi beinar tekjur innlendra lykilaðila og atvinnugreina af viðskiptum við skipin og farþega þeirra líklega numið í kringum 52 milljörðum króna á þessu ári, fyrir utan opinber gjöld. Þetta er sagt meira en af góðri loðnuvertíð.
Til viðbótar þessari tölu koma svo opinberar tekjur eins og virðisaukaskattur og vitagjöld, sala minni þjónustuaðila víða um land til skipanna og farþegar þeirra á kosti, afþreyingu, veitingum og fleiru.
Heildartekjur metnar í fyrsta sinn
Fram kemur í frétt Ferðamálastofu að þetta sé í fyrsta sinn sem reynt er að leggja mat á heildartekjur innlendra lykilaðila af komum skemmtiferðaskipa hingað til lands. Meginforsendurnar eru meðal annars könnun sem Rannsóknamiðstöð ferðamála vann fyrir Faxaflóahafnir í sumar, að frumkvæði Ferðamálastofu, um eyðslu farþega skipanna, og greining Ferðamálastofu á tekjum helstu hagsmunaaðila hér innanlands. Niðurstöðurnar voru kynntar á fundinum.
Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri kom meðal annars inn á það á kynningarfundinum að málefni skemmtiferðaskipanna hafi verið mjög áberandi í umræðunni á árinu. „Það sem hefur hins vegar á tíðum einkennt umræðuna er skortur á gögnum, skortur á þekkingu, skortur á niðurstöðum kannana,“ sagði Arnar Már meðal annars.
Fjórir fyrirlestrar voru fluttir á fundinum þar sem fyrirlesarar greindu og settu fram tölulegar upplýsingar um helstu hagsmunamál Íslendinga vegna komu skemmtiferðaskipa og viðskipti íslenskra aðila við þau. Fjallað var um tekjur af skipunum og farþegum þeirra, afstöðu heimafólks á helstu stöðum þar sem þau koma við og umhverfismál, meðal annars í samanburði við ferðaþjónustu með flugi.
Akureyri.net fjallar nánar um þessa fjóra fyrirlestra og efni þeirra á næstu dögum.
- Á MORGUN – Gistifarþegarnir eyða mun hærri upphæðum