Fara í efni
Fréttir

Skemmdarvargar á ferð í Þorpinu

Ljósmynd: Böðvar Kristjánsson

Einhver eða einhverjir gerðu sér það að leik í gærkvöldi eða nótt að kasta grjóti inn á nýlegan körfuboltavöll, Garðinn hans Gústa, við Glerárskóla. Verið er að leggja lokahönd á frágang við völlinn og grjót sem er þar fyrir utan hafði verið notað til þess arna.

„Það er ömurlegt að koma að þessu svona,“ sagði Böðvar Kristjánsson, einn þeirra sem standa að því frábæra framtaki að komu upp körfuboltavellinum í minningu Ágústs H. Guðmundssonar, í samtali við Akureyri.net.

Sem betur fer virðist völlurinn sjálfur, gólfflöturinn, ekki hafa skemmst þótt tilraun hafi verið gerð til þess.

Líklegt má telja að sá sami, eða þeir sömu, hafi verið á ferð á lóð leikskólans Klappa en þegar starfsmenn komu til vinnu í morgun hafði hluti gróðurs á lóð skólans verið eyðilagður.