Fara í efni
Fréttir

Skattafróðleikur KPMG í Messanum í dag

Helgi Már Jósepsson, verkefnastjóri hjá KPGM. Mynd: aðsend

„Við hjá KPMG höfum í áratugi haft skattafróðleik KPMG í byrjun árs, sem er opinn öllum,“ segir Helgi Már Jósepsson, verkefnastjóri hjá KPMG, en í dag kl 16.00 verður fundur í Messanum á 4. hæði í húsakynnum DriftEA við Ráðhústorgið. „Við höfum haft skattafróðleikinn bæði á höfuðborgarsvæðinu og einnig gjarnan víða á landsbyggðinni.“

„Þarna förum við ávallt yfir helstu skattalagabreytingar en jafnframt fjöllum við um þau mál sem okkur þykja áhugaverð, hafa komið upp á síðastliðnu ári og teljum að þurfi frekari umræðu,“ segir Helgi Már við blaðamann Akureyri.net. „Í ár eru það kynslóðaskipti á fyrirtækjum og uppfærðar leiðbeiningar frá skattyfirvöldum sem og áhrif þeirra á íþróttahreyfinguna, sem okkur fannst mikilvægt að kynna nánar, bæði fyrir hreyfingunni og almenningi.“

Í ár beinum við sjónum okkar sérstaklega að íþróttafélögum og fólki í fyrirtækjarekstri sem vill geta brugðist tímanlega við kynslóðaskiptum

Helgi segir að Skattafróðleikurinn sjálfur verði með hefðbundnu sniði. „Í ár verða ekki miklar breytingar, sérstaklega varðandi einstaklinga, en þó eru nokkrar sem gætu verið áhugaverðar fyrir rekstraraðila. Kynslóðaskipti á fyrirtækjum eru erindi þar sem við förum yfir helstu skattalegu álitaefnin sem geta komið upp þegar kynslóðaskipti eiga sér stað og mismunandi útfærslur á þeim. Við setjum þetta upp sem dæmisögu á einfaldan hátt, enda geta skattaleg málefni verið afar flókin.“

Skattarnir og íþróttahreyfingin

„Í uppfærðum leiðbeiningum frá skattyfirvöldum er lögð áhersla á að íþróttamenn og þjálfarar sem fá greiðslur frá íþróttafélögum, séu skilgreindir sem launþegar fremur en verktakar,“ segir Helgi Már. „Þetta getur haft verulega kostnaðaraukandi áhrif fyrir fjölmörg félög. Í nýlegum bréfum frá skattyfirvöldum er svo til viðbótar áréttað að forsvarsmenn íþróttafélaga beri ábyrgð á staðgreiðslu skatta og tryggingargjalds og geti sætt refsiábyrgð ef brotið er á þessum skyldum. Það er nauðsynlegt að horfa heildstætt á áhrif þessara leiðbeininga á starfsemi íþróttafélaga, þar sem þær gætu bæði gert það erfiðara að reka félögin og eins að fá sjálfboðaliða til starfa.“

 

Skattafróðleikurinn ferðast um landið, en auk Akureyrar, verða haldnir viðburðir á Egilsstöðum, Selfossi og Borgarnesi. Mynd: KPMG á Facebook

Gott að þekkja grunnreglurnar

„Almennt séð laðar umræða um skatta fáa að sér og margir vilja í raun vita sem minnst um þá,“ segir Helgi Már, aðspurður um það, hvort honum þyki almenningur þokkalega vel að sér í skattamálum. „Það er hins vegar jákvætt að til séu aðilar sem hafa mikinn áhuga á sköttum og reglum um þá og geti nýtt sér þann áhuga til að miðla áfram því sem skiptir máli. Þetta er í raun sambærilegt við fjármálalæsi, þ.e. mikilvægt er að skilja grunnreglurnar, en það þurfa hins vegar ekki allir að vera sérfræðingar í skattalegum málum og til þess erum við hér.“

Almenningur ætti eflaust að hafa meiri áhuga á því í hvað skattpeningarnir fara, en mér sýnist þó að umræðan um það sé að vakna

Helgi segir að það sé ekki hans upplifun að fólk sé að fylgjast vel með lagabreytingum. „Raunin er sú að það getur verið erfitt fyrir hinn almenna borgara að átta sig á flóknum lögum og lagasetningum, einkum vegna þess hve oft skortir skýrleika og gott aðgengi að upplýsingum. Það getur líka verið krefjandi fyrir okkur sem vinnum við að þekkja og túlka lögin. Áhugi á þessum málum kemur þó stundum í bylgjum, eins og núna sést á skráningunum á Skattafróðleikinn en það virðist vera mikill áhugi á efninu.“

Algengt að rekstraraðilar velti fyrir sér félagaformum

„Hjá almennum launþegum er skattheimtan í tiltölulega föstum skorðum, en hjá rekstraraðilum skiptir miklu máli hvernig rekstrinum er háttað, meðal annars hvaða félagaform er valið,“ segir Helgi Már. „Ég fæ oft spurninguna: „Hvernig á ég að setja upp félagið mitt, þ.e. í hvaða félagaformi, og hvernig get ég lágmarkað skatta innan ramma laganna?“ Við þessu er ekkert algilt svar, það fer mikið eftir því í hvaða rekstri viðkomandi er og hver framtíðaráform viðkomandi rekstraraðila eru og hvort viðkomandi sé í áhættusömum rekstri.“

„Margir huga of seint að þessu og þá getur reynst bæði flókið og dýrt að breyta uppsetningunni,“ segir Helgi Már. „Samt er alltaf skynsamlegt að meta hvort hægt sé að gera breytingar sem koma sér vel, til dæmis ef fyrirséð er að stutt sé í kynslóðaskipti. Eftir að ég flutti aftur norður og fór að kynnast betur fyrirtækjunum hér, sé ég að viðfangsefnin eru svipuð og fyrir sunnan en þó skiptir t.d. seljanleiki fyrirtækja gjarnan meira máli á landsbyggðinni þar sem stundum eru færri kaupendur sem koma til greina en á stór höfuðborgarsvæðinu. Annars tel ég að almenningur ætti eflaust að hafa meiri áhuga á því í hvað skattpeningarnir fara, en mér sýnist þó að umræðan um það sé að vakna.“

Skattafróðleikurinn er fyrir alla

„Við höfum alltaf lagt áherslu á að þetta sé fróðleikur fyrir alla, óháð því hvort fólk sé sérhæft í skattamálum eða ekki,“ segir Helgi Már. „Í ár beinum við sjónum okkar sérstaklega að íþróttafélögum og fólki í fyrirtækjarekstri sem vill geta brugðist tímanlega við kynslóðaskiptum. Fróðleikurinn er opinn öllum, og ég hvet alla áhugasama til að skrá sig og koma í Messann við Ráðhústorg en við verðum á 4. hæðinni hjá DriftEA. Við munum gefa okkur góðan tíma fyrir og eftir erindin til að spjalla við þá sem vilja dýpka umræðuna, enda verða sérfræðingar okkar á ýmsum sviðum á staðnum – bæði úr hópi starfsmanna okkar hér á Akureyri og úr Reykjavík.“

Margir þekkja þjónustu KPMG á sviði endurskoðunar og reikningsskila en starfsemin er þó mun víðtækari. „Við starfrækjum t.a.m. öflugt ráðgjafarsvið sem veitir fyrirtækjum, sveitarfélögum og opinberum stofnunum fjölbreytta ráðgjafarþjónustu auk skatta- og lögfræðiþjónustunnar sem veitt er hjá KPMG Law,“ segir Helgi Már. „Hér á Akureyri höfum við byggt upp sterkt teymi á ráðgjafarsviðinu og einnig í þjónustu lögmannsstofunnar okkar, þar sem ég starfa meðal annars að lögfræðilegum og skattalegum málefnum fyrirtækja og opinberra aðila. Það hefur verið mikið að gera og við erum að stækka en ég vona að við getum bætt við okkur lögfræðingi hér á Akureyri til að efla starfsemi lögmannsstofunnar okkar, KPMG Law, enn frekar.“

HÉR er viðburðurinn 'Skattafróðleikur KPMG' á Facebook. Það þarf að skrá sig.